Álftanes - Hvíti riddarinn, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur. 

Stutt endurgjöf vegna kappleiksins í gær. Fínn æfingaleikur og talsvert öðruvísi mótherji en oft áður. Pressuðum hátt á vellinum og stjórnuðum leiknum frá upphafi. Fengum þó á okkur nokkrar hættulegar skyndisóknir, einkum í fyrri hálfleik, þar af eitt mark.

Lékum 4-4-2 í fyrri hálfleik og 4-3-3 í hinum síðari. Mér fannst betra jafnvægi á liðinu í 4-4-2, einkum sökum þess að við höfum aðallega leikið það kerfi í vetur og erum því vanari. Leikkerfið 4-3-3 þekkjum við hins vegar vel. 

Mér fannst gott flæði vera á knettinum og við náðum að skapa okkur fullt af möguleikum, bæði til markskota af löngum færum og marktækifærum. Þegar við komum í námunda við markið fannst mér ákvarðanataka oft og tíðum ekki nægjanlega góð og við vorum klaufar að skora ekki fleiri mörg. Gerðum fjögur (Saga 2, Erna 1 og Oddný 1) og það er auðvitað vel. Náðum að sama skapi ekki að nýta urmul tækifæra.

Það sem við tökum úr þessum leik er að það er hugsun að baki því sem við erum að gera inni á vellinum og langflestar sendingar hafa t.d. tilgang (mundi segja ca 95%) sem er mjög gott. Við erum því að hugsa og skapa inni á vellinum. Um það höfum við rætt. Pressan, einkum í síðari hálfleik, var góð og Hvíti riddarinn fékk engan tíma á knettinum. Varnarleikurinn var því góður og aðeins öðruvísi en oft áður vegna hápressu. Það sem enn skortir er aðeins meira þor og sjálfstraust, einkum upp við markið. Heilt yfir er ég því nokkuð ánægður með frammistöðuna.

Birgir Jónasson þjálfari.