Almennar reglur

Reglur og samþykktir

Siðareglur þjálfara hjá Ungmennafélagi Álftaness

 1. Meðhöndlaðu alla iðkendur á einstaklingsgrunni og á þeirra eigin forsendum
 2. Styrktu jákvæða hegðun og framkomu
 3. Sjáðu til þess að þjálfun og keppni sé við hæfi iðkenda með tilliti til aldurs, reynslu og hæfileika
 4. Haltu á lofti heiðarleika (Fair Play) innan íþróttarinnar
 5. Viðurkenndu og sýndu virðingu þeim ákvörðunum sem dómarar taka
 6. Fáðu iðkendur til að vera með í ákvörðunum sem tengjast þeim og kenndu þeim að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í íþróttinni
 7. Vertu réttlátur, umhyggjusamur og heiðarlegur gagnvart iðkendum þínum
 8. Viðhafðu jákvæða gagnrýni og forðastu neikvæða gagnrýni.
 9. Settu ávallt á oddinn heilsu og heilbrigði iðkenda þinna og varastu að setja þá í aðstöðu sem ógnað gæti heilbrigði þeirra
 10. Sýndu athygli og umhyggju þeim iðkendum sem orðið hafa fyrir meiðslum
 11. Leitaðu samstarfs við aðra þjálfara og sérfræðinga þegar þess þarf
 12. Viðurkenndu rétt iðkandans til þess að leita ráða frá öðrum þjálfurum
 13. Samþykktu aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði
 14. Forðastu náið samband við iðkanda þinn.
 15. Sinntu iðkendum á æfingum en þess utan skaltu halda þig í faglegri fjarlægð. Forðastu samskipti gegnum síma og Internetið nema til boðunar æfinga og upplýsingagjafar sem ávallt eiga að fara í gegnum forráðarmann
 16. Vertu meðvitaður um hlutverk þitt sem fyrirmynd, hvort sem er í leik eða starfi
 17. Talaðu alltaf gegn notkun ólöglegra lyfja.
 18. Talaðu ávallt gegn neyslu áfengis og tóbaks
 19. Komdu eins fram við alla iðkendur, óháð kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð
 20. Notfærðu þér aldrei aðstöðu þína sem þjálfari til að uppfylla eigin áhuga á kostnað iðkandans
 21. Hafðu ávallt í huga að þú ert að byggja upp fólk, bæði líkamlega og andlega

Samþykkt í Aðalstjórn UMFÁ, 29.september, 2009

Reglur um fjáraflanir – Fjáröflunarráð

Stjórn Ungmennafélags Álftaness skipar þriggja manna fjáröflunarráð. Hlutverk ráðsins er að:

 • framfylgja stefnu og reglum félagsins um safnanir
 • kynna reglur félagsins um safnanir á vegum þess
 • halda skrá um þær safnanir sem fara fram á vegum félagsins og afrakstur.
 • veita flokkum upplýsingar um safnanir sem farið hafa fram og fyrirhugaðar eru á vegum félagsins sé eftir þeim leitað
 • skipuleggja dósasafnanir á vegum félagsins fyrir komandi tímabil og deila þeim meðal félagsmanna.

Öllum sem hyggjast safna á vegum félagsins er skylt að tilkynna það til fjáröflunarráðsins og fá samþykki þess til söfnunarinnar. Fjáröflunarráð skal leggja mat á hvaða flokkar ættu að taka þátt í dósasöfnunum (hversu ungir krakkar) og leggja tillögur um slíkt til stjórnar.

Stjórnin samþykkir eftirfarandi reglur sem ráðinu ber að framfylgja eftir bestu getu:

 1. Elsti unglingaflokkur knattspyrnudeildar (3.flokkur) hefur forgang að almennum söfnunum meðal íbúa Álftaness. Drengir og stúlkur skulu skiptast á þannig að eitt árið safna drengir meðal íbúanna og næsta ár stúlkur. Söfnun lýkur þegar ferð/verkefni hefst og næsta söfnun getur þá hafist.
 2. Ef flokkar í öðrum deildum en knattspyrnudeild hyggjast fara í utanlandsferð eða viðlíka stór verkefni mun stjórn og fjáröflunarráð taka á því máli og endurskoða þetta ákvæði eftir aðstæðum.
 3. Öðrum flokkum/deildum er heimilt að safna meðal ættingja og náinna vina og meðal íbúa utan Álftaness. Tilkynna skal þó allar slíkar safnanir fyrirfram til fjáröflunarráðs og fá samþykki þess. Fjáröflunarráðið getur hafnað slíkri beiðni ef það telur ástæðu til eða óskað þess að stjórn taki afstöðu til hennar.
 4. Dósasafnanir skulu vera sem næst 10 á ári. Almennt skal miðað við að sá flokkur (eða flokkar) sem hefur forgang að almennri söfnun meðal íbúa Álftaness skuli njóta forgangs að söfnunum sem líklegt er að gefi mest af sér. Fjáröflunarráði er heimilt að úthluta fleiri en einni söfnun til sama flokks.
 5. Allir peningar sem safnast í fjáröflunum í nafni Ungmennafélags Álftaness skulu geymdir á bankareikningi á nafni og kt. félagssins. Forsvarsmaður söfnunar í hverjum flokki er svo prókúruhafi á reikningnum. Framkvæmdastjóri UMFÁ sér um að stofna bankareikningana.
 6. Forsvarsmaður söfnunar í hverjum flokki skal halda bókhald yfir skiptingu söfnunarfjár milli einstaklinga. Honum ber að veita upplýsingar um skiptingu fjárins ef þess er óskað, af foreldrum, fjáröflunarráði eða stjórn UMFÁ.

Vinnureglan í dósasöfnunum og sjoppum hefur verið sú að sá sem tekur fullan þátt í slíkri fjáröflun fær einn hlut af innkomu, en taki foreldri þátt líka eru greiddir tveir hlutir. Aldrei er samt greitt meira en tveir hlutir, þó svo báðir foreldrar mæti. (Þetta er haft svona til að koma í veg fyrir að mismuna fólki t.d. þar sem bara eitt foreldri er á heimili, og koma í veg fyrir að fólk mæti með heilu fjölskyldurnar og fái gr. einn hlut fyrir hvern).

Minnt er á „Reglur um safnanir á vegum félagsins“

Samþykkt í nóvember 2008 með viðbótum í júní 2009 og febrúar 2012.

Reglur um safnanir á vegum félagsins

 1. Tilgangur safnana í nafni Ungmennafélags Álftaness skal ávalt skýr og söfnunarfé ráðstafað í samræmi við hann.
 2. Óheimilt er að safna fé til einkaneyslu í nafni félagsins. Til einkaneyslu telst öll önnur neysla en sem til er stofnað vegna verkefna og viðburða á vegum félagsins.
 3. Heimilt er þó vegna ferðalaga að gera ráð fyrir tiltekinni upphæð (dagpeningum) til einstaklinga enda sé sú upphæð í samræmi við beinan kostnað sem ætla má að einstaklingur þurfi að bera vegna ferðarinnar umfram það sem hann annars hefði þurft. Til viðmiðunar skulu þessir dagpeningar ekki vera hærri en sem nemur 15% af heildarkostnaði við ferð.
 4. Foreldraráð eða aðrir þeir sem stjórna söfnun skulu setja reglur um skiptingu söfnunarfjár milli einstaklinga enda hafi þær verið ræddar og samþykktar af þeim sem að söfnuninni standa og í samræmi við reglur félagsins.
 5. Nú hefur einstaklingur safnað fé sem sérstaklega er merkt honum en verður af óviðráðanlegum sökum að hætta við þátttöku í verkefni sem fénu var ætlað. Skal féð þá sett til hliðar þar til viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda hans getur nýtt það í félagsstarfi UMFÁ síðar meir.
 6. Stjórn UMFÁ úrskurðar um öll ágreiningsmál sem upp kunna að koma í tengslum við safnanir á vegum félagsins og getur sett nánari reglur um þær og veitt undanþágur ef slíkt telst nauðsynlegt.

Samþykkt á aðalfundi Ungmennafélags Álftaness, 15.mars, 2007