Æfing á föstudag, ekki á morgun

Sæl, öllsömul!

Vegna kappleiks í Íslandsmóti á Bessastaðavelli fellur æfing niður á morgun, fimmtudag. Þess í stað verður æfing á föstudag, frá kl. 16. Í framhaldi verður horft á upptöku kappleiks í Íslandsmóti á DVD inni í félagsaðstöðu.  

Birgir og Guðbjörn þjálfarar. 

Breyttur æfingatími í dag

Sæl, öllsömul!

Athylgi er vakin á því að æfingin í dag, þriðjudaginn 20. ágúst, er frá kl. 17.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Íslandsmót í sjö manna knattspyrnu - umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Við þjálfarar ætlum að fara nokkrum orðum um Íslandsmótið í sjö manna knattspyrnu hjá 4. flokki stúlkna en fremur lítið hefur farið fyrir umfjöllun um það hér inni á heimasíðunni í sumar.

Álftanes lék í A-riðli en alls var leikið í þremur riðlum. Í stuttu máli var leikjafyrirkomulag á þá lund að leikin voru þrjú hraðmót í hverjum riðli. Í A-riðli léku, auk Álftaness, Afturelding, Grindavík og Grótta. Hraðmótin í A-riðli fóru fram 19. júní í Mosfellsbæ, 10. júlí í Grindavík og 12. ágúst á Seltjarnanesi. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og úrslit má nálgast undir eftirfarandi vefslóð: http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=30567.

Skemmst er frá að segja að Álftanes og Grótta höfðu nokkra yfirburði í umræddum riðli og báru af öðrum liðum. Fór svo að Grótta hafði betur í hreinum úrslitaleik, 3-2, um hvort liðið myndi vinna riðilinn. Hlaut Grótta 24 stig og Álftanes 21.

Þrátt fyrir þetta mun Álftanes taka þátt í úrslitakeppni Íslandsmótsins sem fram mun fara um næstu helgi. Ekki liggur fyrir hvar leikið verður en þar munu taka þátt auk Gróttu og Álftaness liðin er urðu í fyrsta sæti beggja hinna riðlanna, sem eru BÍ/Bolungarvík og Dalvík. Mun það skýrast fljótlega í næstu viku hvað leikið verður.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðu stúlknanna og spilamennsku þeirra í mótinu. Það verður því spennandi sjá hvað gerist næstu helgi en vonandi fá stúlkurnar verðugt og krefjandi verkefni.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Leikið í Íslandsmóti á mánudag, 12. ágúst

Sæl, öllsömul!

Leikið verður í Íslandsmóti á mánudag, 12. ágúst. Fyrirkomulag verður með sama sniði og síðast, þ.e. leiknir verða þrír leikir, nánast í einni samfellu, við Aftureldingu, Grindavík og Gróttu, en leikið verður á Gróttuvelli á Seltjarnarnesi að þessu sinni. Um síðustu leikjatörn sumarsins er að ræða en liðið á möguleika á að komast í úrslit Íslandsmóts. Veltur það á úrslitum mánudagsins. 

Leikar hefjast kl. 16 og þurfa stúlkur að vera mættar á leikstað eigi síðar en kl. 15:15. Mæting er við íþróttahúsið á Álftanesi kl. 14:45 en lagt verður af stað í framhaldi. Þeir foreldrar/forráðamenn sem ráðgera að fara eru beðnir að staðfesta það hér inni á síðunni.

Allar stúlkur flokksins eru boðaðar. Tilkynna ber um öll forföll. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort einhverjar stúlkur í 5. aldursflokki muni verða boðaðar en þær eru að leika á Pæjumóti TM á Siglufirði um helgina.

Þar sem æfingasókn hefur verið fremur dræm frá því heim var komið frá Danmörku er mikilvægt að stúlkur undirbúi sig eins og best verður á kosið því verkefnið er krefjandi. Mælst er til þess að stúlkur mæti á æfingu í dag, fimmtudag (ef ekki, fari þá út að skokka þrjá til fimm kílómetra), fari út að skokka á föstudag og laugardag (þrjá til fimm kílómetra báða daga) og taki tækniæfingar í 15 til 25 mínútur alla þá daga sem engar æfingar eru, þ.e. á föstudag, laugardag og sunnudag. Með þessu er grunnþoli viðhaldið og tilfinningu fyrir knetti.

Loks þurfa stúlkur að gæta þess að taka með sér nesti á mánudag því keppni sem þessi krefst mikillar orku. Þá eru stúlkur hvattar til þess að taka með sér vatnsbrúsa.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.