Dana cup - dagur sjö

Sæl, öllsömul!

Þá er sjöundi og síðasti dagur okkar hér á Dana cup senn á enda en árdegis á morgun, mánudag, verður lagt af stað heim til Íslands. Byrjað verður á því að ferðast með rútu á Billund flugvöll . Áætluð koma til Íslands er um kl. 15:30.

Dagurinn í dag hefur verið gjörólíkur öllum öðrum dögum hér ytra en allir tóku það rólega fram að hádegi (flestir vöknuðu þó í morgunverðarhlaðborðið fyrir kl. 9). Engin sérstök dagskrá var ráðgerð og afráðið var að hvílast í dag og taka því rólega. Það var gert og hefur dagurinn farið afar vel fram; sumir hafa leikið sér í knattspyrnu, aðrar gengið hér um svæðið o.s.frv. Veður hefur verið með eindæmum gott, engin sól, en ósk okkar uppfylltist, hann hékk þurr.

Jónas (faðir Svandísar) kom við hjá okkur í dag og bauð upp á þetta líka ljúffenga sætabrauð í tilefni þess að hann átti afmæli í gær.

Annars hefur verið afar rólegt hér á gististað en öll önnur lið eru farin en þau siðustu á undan okkur fóru snemma í morgun. Þegar þessi orð eru rituð eru allir í óða önn við að taka til og byrja að pakka niður. Hér er því allt á fullu.

Heilt yfir er ég afar ánægður með ferðina sem gengið hefur framúrskarandi vel. Börnin hafa verið til fyrirmyndar í hvívetna og hefur framganga þeirra og prúðmennska hér á gististað vakið sérstaka athygli. Þá hafa fararstjórarnir staðið sig með afbrigðum vel, sem og auðvitað Guðbjörn.

Ég ætla að hafa pistil minn í styttra lagi að þessu sinni en þetta er síðasta pistill minn um Dana cup. Vonandi hafa allir haft af þessu gagn og eitthvert gaman.

Að lokum vil ég svo vekja athygli á að við komu á morgun mun hópurinn koma allur saman í anddyri flugstöðvar.

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.

Dana cup - dagur sex

Sæl, öllsömul!

Þá er sjötti dagur á Dana cup senn á enda en honum var eytt að mestu í brakandi blíðu í skemmtigarðinum Fårup Sommerland. Tókum daginn nokkuð snemma en lagt var af stað í rútu í skemmtigarðinn um níuleytið. Um 40 mínútna akstur er í umræddan skemmtigarð hér frá dvalarstað.

Nokkuð erfitt er að lýsa því sem fyrir augu bar en um ógleymanlega upplifun allra var að ræða en um fjölbreyttan skemmtigarð ræðir sem hefur upp á að bjóða hvers konar afþreyingu. Munu ljósmyndir frá deginum í dag hafa verið settar inn á fésbókarsíðu flokkanna. Er fólk hvatt til þess að skoða þær myndir.

Þegar halda átti aftur til Hjørring kom í ljós að gleymst hafði að afhenda okkur miða í rútuna en um almenningsvagn var að ræða, ekki hina sömu rútu og sótt hafði hópinn. Eftir nokkra rekistefnu afréð afar viðfelldinn og sveigjanlegur bifreiðastjóri að heimila okkur að ferðast með vagninum. Var slíkt ekki sjálfgefið þar sem farþegar þurftu frá að hverfa. Einhver hafði á orði að helst hefði umræddur bifreiðastjóri minnt á jólasvein í útliti vegna skeggvaxtar. Það má því kannski segja að jólasveinninn hafi komið okkur til bjargar!

Komum á gististað um áttaleytið en þar beið okkar þessi ljómandi ljúfengi kjúklingaréttur sem eldaður var af dönskum, miðaldra skátum. Ekki hef ég skýringar á því hvers vegna kom í þeirra hlut að elda fyrir okkur en þeir gerðu það vel og um kærkomna tilbreytingu í fæðuvali var að ræða (þá síðari þann daginn en snæddur var afar ljúfengur hádegisverður í skemmtigarðinum).

Kvöldið fór svo í „rólegheit“, sumir léku sér í knattspyrnu (en hér í kring er nóg af grasvöllum), aðrir fengu sér göngutúr í skóginum (en nóg er af skóglendi er hér í nágrenninu) og enn aðrir tóku það rólega inni á herbergi.

Þegar þessi orð eru rituð er, sem endranær, fyrirgangur Norðmanna allnokkur hér á gististað en nú hafa „söngfuglarnir“ og hávaðaseggirnir tekið upp þá iðju að stunda háværan spurningarleik. Ef norskukunnátta mín svíkur ekki fjallar spuningarleikur þessi um íþróttatengt efni.

Læt þess loks getið að nokkrir foreldrar hafa komið og hitt okkur og/eða fylgt hópnum hér ytra. Magnús og Þórey (foreldrar Davíðs) hafa t.d. hitt okkur á hverjum degi en þau dvelja hér skammt frá. Á miðvikudag kom svo Ólafur (faðir Alex Ó.) og hefur hann hitt okkur daglega síðan. Loks hittum við Jónas (föður Svandísar) í kvöld.

Læt skrif þessi duga um daginn i dag en á morgun er ráðgert að taka því rólega en hellirigningu er spáð. Ekkert er ákveðið en mun kylfa ráða kasti hvað gert verður. Danir vilja ólmir fá rigningu en við erum ekki sama sinnis - bara að hann hangi þurr, þó ekki væri nema einn dag enn! 

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.

Dana cup - dagur fimm

Sæl, öllsömul!

Fimmti dagur á Dana cup hófst eins og flestir aðrir; allir vöknuðu snemma og snæddu af „fjölbreyttu“ morgunverðarhlaðborði hér á gististað. Það sem þó var öðruvísi þennan morgun var að Ída María átti afmæli og af því tilefni var sungið fyrir hana afmælissöngur. Til hamingju Ída María!

Um níuleytið var svo haldið í miðbæinn og þaðan tekinn almenningsvagn til strandbæjarins Løkken en þangað er ca 30 mínútna akstur. Allnokkurn tíma tók þó að koma sér að staðinn og vorum við ekki komin þangað fyrr en um tólfleytið. Spilaði þar stóra rullu hið tæknilega vandamál hvernig greiða átti fyrir 47 farþega í einu lagi, án þess að nota greiðslukort, sem ekki var í boði að gera.

Þegar til Løkken var komið var farið á ströndina þar sem allir skemmtu sér konunglega, m.a. við sjósund. Allnokkuð af fólki var á ströndinni, sem er vinsæll ferðarmannastaður í Danmörku, enda veður frábært, tæplega 30 gráðu hiti og brakandi blíða. Betra gerist það ekki! Eftir u.þ.b. tveggja klukkustunda dvöl á ströndinni var haldið í miðbæ Løkken þar sem hópurinn skoðaði m.a. hvernig brjótsykur er búinn til, þökk sé staðarkunnáttu Guðbjörns Harðarsonar. Þá mataðist hópurinn áður en haldið var á ný til Hjørring. Gekk ekki alveg vandkvæðalaust að greiða fyrir 47 manns í einu lagi, án þess að nota greiðslukort, sem ekki var í boði að gera.

Þegar til Hjørring var komið fór hópurinn í verslunarmiðstöðina Metropol þar sem dvalið var í rúma klukkustund (þar voru engin greiðslukortavandkvæði). Því næst var snæddur kvöldverður í mötuneyti mótsins en að þessu sinni var boðið upp á „nautagúllas“. Spennandi hefði verið að sjá mælingar hins íslenska matvælaeftirlits á kjötmagni í umræddum rétti en hann var ansi hreint rýr af kjöti! Að svo búnu, milli klukkan sjö og átta, var haldið á gististað þar sem hafðar voru hraðar hendur við undirbúning lokadansleiks mótsins. Um 30 börn fóru á dansleikinn sem haldinn var í miðju tívolíi sem staðsett er á mótssvæði. Þeir sem ekki fóru á dansleikinn dvöldu á gististað í góðu yfirlæti.

Komið var svo á gististað að dansleik um miðnætti. Þegar þessi orð eru rituð eru Álftnesingar komnir í ró, að mér undanskildum. Meðan setið er við skriftir hljómar hér um gervallt hús nokkuð hávær söngur norskra drengja.

Læt þetta duga að sinni en i fyrramálið er ráðgert að heimsækja skemmtigarðinn Fårup Sommerland en rúta mun sækja okkur kl. 9.

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.

Dana cup - dagur fjögur

Sæl, öllsömul!

Fjórði dagur Dana cup að kvöldi kominn. Mér finnst við hæfi að hefja pistil minn á því að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst við Íslendingar vera hálfdrættingar á við Dani að halda knattspyrnumót og skemmta sér á keppleikjum. Stemningin hér er einstök og allt, allt öðruvísi en heima á Íslandi. Hér syngur fólk á kappleikjum, fyrir kappleiki og eftir kappleiki, óháð úrslitum. Það er merkilegt að bera saman þetta mót og Símamótið í Kópavogi sem lauk á sunnudag, skömmu áður en haldið var til Danmerkur. Þar mátti oft og tíðum heyra saumnál detta meðan á kappleikjum stóð en hér er annað uppi á teningnum. Hér er leikgleðin í fyrirrúmi og úrslit kappleikja ekki aðalatriði!

Minni sól var í dag en aðra daga, Guði sé lof segja kannski einhverjir, en frábært veður engu að síður, um það bil 23 gráðu hiti og logn. Fullkomið veður til knattspyrnuiðkunar.

Dagurinn í dag var tekinn snemma þar sem leikir hófust fyrir kl. 9. Öll liðin léku í útsláttarkeppni , stúlknaliðið í 16 liða A-úrslitum og drengjaliðin í 32 liða A- og B-úrslitum. Úrslit dagsins urðu eftirfarandi:

Stúlkur, G-14
Álftanes – Søreide IL: 0-3

Drengir, B-13
Álftanes – Fitjar IL: 3-3 (7-8 eftir vítaspyrnukeppni) (Alex Ó. 1, Bolli Steinn 1, Sævar 1)

Drengir, B-14
Álftanes – Stathelle og Omegn IL: 2-3 (Alex Þór 1, Kjartan 1)

Stúlkurnar léku gegn enn einu norska liðinu, Søreide IL. Samkvæmt munnmælum var um hörkuleik að ræða þar sem hinar norsku voru sterkari í fyrri hálfleik. Undir lok hálfleiksins náðu hinar norsku að skora þrjú mörk með skömmu millibili og stóð því 3-0 í leikhléi. Mun það hafa verið alltof stórar tölur miðað við gang leiksins. Í síðari hálfleik munu okkar stúlkur hafa komið ákveðnar til leiks og pressað hinar norsku. Munu stúlkurnar hafa sýnt sinn besta leik á mótinu, spilalega, og voru mun betra liðið. Þrátt fyrir hetjulega baráttu tókst okkar stúlkum ekki að setja mark þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir. Þar við sat og fóru þær norsku með sigur af hólmi, 3-0.

Úrslit þessi þýða að stúlkaliðið hefur lokið keppni á Dana cup. Heilt yfir frábær frammistaða hjá stúlkunum sem þær munu taka með sér og byggja á.

Drengirnir í liði B-14 léku geng norsku liði, nema hvað, en um var að ræða liðið Stathelle og Omegn IL. Um hörkuleik var að ræða þar sem okkar drengir voru mun betur spilandi. Gegn gangi leiksins komst norska liðið yfir með marki úr föstu leikatriði (hornspyrnu) en á þeim tímapunkti leiksins höfðu okkar drengir fengið mun betri marktækifæri, þar af tvö algjör dauðafæri. Þrátt fyrir nokkrar góðar atlögur náðu drengirnir ekki að jafna metin í fyrri hálfleik og stóð 0-1 í leikhléi, norska liðinu í vil. Í síðari hálfleik hófu okkar drengir leikinn af krafti og náði Alex Þór að jafna metin með hreint út sagt ótrúlegu einstaklingsframtaki þar sem hann fékk knöttinn á eigin vallarhelmingi, lék á sex leikmenn mótherjanna og skoraði örugglega einn gegn markverði. Í framhaldi komu tvö mörk í röð hjá þeim norsku á tveggja mínútna millibili en fyrra markið var afar ódýrt. Okkar drenigr gáfu allt i leikinn og pressuðu og pressuðu það sem eftir lifði leiks. Það skilaði einu marki frá Kjartani en því miður komust drengirnir ekki lengra og höfðu ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir nokkur góð marktækifæri.

Þar með luku drengirnir í liði B-14 þátttöku á mótinu. Heilt yfir stóðu drengirnir sig með afbrigðum vel og hefur verið umtalað hér hve léttleikandi þeir eru.

Drengirnir í liði B-13 léku gegn Fitjar IL, sem viti menn er frá Noregi. Um hörkuleik var að ræða þar sem okkar drengir voru skrefi á undan lungann af leiknum og leiddu með forystu. Fyrsta mark leiksins skoraði Sævar (sem lék með B-13 vegna forfalla og veikinda liðsmanna). Eftir markið komust Norðmennirnir betur inn í leikinn og náðu að jafna metin. Okkar drengir voru ekki hættir og náðu að skora tvö mörk með stuttu millibili, fyrst Bolli Steinn með þrumuskoti fyrir utan vítateig, og svo Alex Ó. eftir barning í vítateig eftir hornspyrnu. Þannig stóð í leikhléi, 3-1, Álftanesi í vil. Í síðari hálfleik var jafnræði með liðum en þegar á hálfleikinn leið náðu Norðmennirnir að komast betur inn í leikinn og skilaði það tveimur mörkum án þess að okkar drengir næðu að svara en síðara markið kom þegar aðeins tíu mínútur voru eftir af leiknum. Fleiri mörk voru ekki skoruð og urðu því lyktir leiks 3-3. Grípa þurfi til vítaspyrnukeppni til þess að fá fram úrslit. Þar höfðu Norðmennirnir betur, 4-5.

Lauk þar með lið B-13 keppni á mótinu. Mótið var þeim nokkuð erfitt en síðasti leikur mótsins var þó jafn og spennandi og munaði mjóu að drengirnir kæmust áfram.

Síðari hluta dags í dag var svo haldið í bæjarleiðangur þar sem komið var við í H&M og á Mcdonalds. Munu reifarakaup hafa verið gerð í H&M og allir skemmt sér vel. Ég er þó ekki til frásagnar um það þar sem ég var fjarri góðu gamni.

Þegar þetta er ritað er að komast ró á mannskapinn (alltént iðkendur frá Álftanesi). Afar skemmtilegt hefur verið hér á dvalarstað okkar hér í kvöld og mikið líf og fjör. Þá er afar ánægjulegt að sjá að börnin af Álftanesi eru farin að kynnast börnum frá öðrum löndum, frá Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð.

Læt þetta duga að sinni en á morgun er ráðgert að fara til Løkken „að spóka sig“ á ströndinni þar í bæ en um vinsælan stað er að ræða þar sem Guðbjörn Harðarson er öllum hnútum kunnugur en hann hefur tvisvar sinnum farið þangað með lið frá Álftanesi í æfingaferð.

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.