Dana cup - dagur þrjú

Sæl, öllsömul!

Þá er dagur þrjú að kvöldi kominn hér á Dana cup en sá dagur var langur og strembinn. Sama blíðan áfram, sól og tæplega 30 gráðu hiti, og ekkert lát á hitabylgjunni hér. 

Tókum daginn snemma þar sem leikir fóru fram fyrir hádegi og svo aftur undir kvöld (og í kvöld). Vorum við því á faraldsfæti þar sem nánast allir leikir fóru fram á sitt hverjum vellinum, sem eru á níunda tug talsins, út og suður um allan bæ.

Öll liðin léku tvo leiki í dag og segja má að dagurinn hafi verið „norskur“ en aðeins var leikið gegn norskum liðum sem reyndar eru hér í miklum meiri hluta. Úrslit dagsins urðu eftirfarandi:

Stúlkur, G-14
Álftanes – Byåsel IL: 2-1 (Salka 2)
Álftanes – Hinna FB: 5-0 (Salka 3, Sara 1, Snædís 1)

Drengir, B-13
Álftanes – Ravn IL: 0-6
Álftanes – Hinna FB: 0-11

Drengir, B-14
Álftanes – Aksla IL: 4-2 (Gylfi Karl 2, Kjartan 1, Tristan 1)
Álftanes – Mandalskameratene FK: 8-0 (Gylfi Karl 3, Alex 2, Atli 1, Kjartan 1, Tristan 1)

Stúlkurnar léku sem áður segir tvo leiki. Fyrri leikurinn var gegn Byåsel IL. Um hörkuleik var að ræða þar sem okkar stúlkur náðu að skora og komast yfir snemma leiks. Þar var Salka á ferð með gott mark. Fyrri hálfleikur var í algjörum járnum og jafnfræði var með liðum. Norska liðið sótti heldur meira en okkar stúlkur fengu mun hættulegri marktækifæri. Í upphafi síðari hálfleiks náði norska liðið að jafna metin. Í næstu sókn á eftir náði Salka að skora beint úr aukaspyrnu og stóð þá 2-1, okkar stúlkum í vil. Eftir það pressuðu norsku stúlkurnar og fengu nokkur góð marktækifæri sem ekki nýttust. Þar við sat og stóðu okkar stúlkur uppi sem sigurvegarar leiksins sem verða að teljast afar hagstæð úrslit miðað við gang leiksins. Stúlkurnar gáfu allt í leikinn og uppskáru eftir því.

Í síðari leik dagsins léku stúlkunar gegn Hinna FB. Okkar stúlkur pressuðu þær norsku frá fyrstu mínútu og voru miklu mun betra liðið. Uppskáru þær 5-0 sigur sem var síst of stór miðað við gang leiksins. Salka gerði þrjú mörk og Sara og Snædís sitt markið hvor.

Framangreind úrslit tryggðu liði Álftaness sæti í 16 liða úrslitum A-liða. Fara þau fram í fyrramálið. Þetta er nokkuð óvænt en um leið skemmtilegt en það skóp frábær frammistaða liðsins. Ljóst er hins vegar að um afar krefjandi verkefni er að ræða. Þrátt fyrir þetta eiga stúlkurnar nokkuð inni, einkum hvað varðar móttöku knattar og sendingar. Stúlkur geta því enn bætt sig og því verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Drengirnir í liði B-13 áttu erfiðan dag en þeir léku gegn tveimur norskum liðum, eins og áður hefur komið fram. Fyrri leikurinn var gegn Ravn IL. Skemmst er frá að segja að um erfiðan leik var að ræða þar sem okkar drengir áttu litla möguleika gegn sterku norsku liði. Stóð 0-5 í leikhléi, hinum norsku í vil. Í síðari hálfleik léku drengir betur og náðu mótherjar aðeins að skora eitt mark í síðari hálfleik en það kom úr vítaspyrnu. Lyktir urðu 0-6 sem verða að teljast sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins og getu liðanna.

Síðari leikurinn var gegn Hinna FB. Einnig var um afar erfiðan leik að ræða þar sem okkar drengir náðu þó að velgja hinum norsku undir uggum fyrstu tíu mínúturnar en fram að þeim tíma stóð jafnt. Fór þetta nokkuð í skapið á þeim norsku sem komu á óvart með léttleikandi knattspyrnu þar sem langar spyrnur voru í minni hluta. Eftir að „Hinnungar“ náðu að bjóta ísinn héldu þeim engin bönd og urðu lykir leiksins 0-11, hinum norsku í vil. Gekk einhvern veginn allt upp hjá þeim í síðari hálfleik og þvi fór sem fór. Það sem ég var þó einkum ánægður með í leiknum var annars vegar hugarfarið en drengir gáfust ekki upp og komu af leikvelli með bros á vör og hins vegar að inn á milli voru góðir spilakaflar hjá okkar drengjum sem reyndu og reyndu.

Framangreind úrslit þýða það að Álftans, B-13, mun leika í B-úrslitum mótsins sem fram fara á morgun.

Segja má að hlutskipti drengjaliðanna sé nokkuð ólíkt en drengir í liði B-14 léku vel í dag og fóru hreint hamförum. Í fyrri leik þeirra léku þeir gegn Aksla IL. Stjórnuðu okkar drengir leiknum frá fystu mínútu. Gegn gangi leiksins skoraði norska liðið fyrsta mark leiksins. Okkar drengir svörðu því fljótlega með marki frá Gylfa Karli. Stóð 1-1 í leikhléi þrátt fyrir nokkra yfirburði okkar drengja í fyrri hálfleik. Í síðar hálfleik var þetta aldrei spurning en okkar drengir gerðu þrjú gegn einu. Gylfi Karl, Kjartan og Tristan sáu um markaskorun. Sanngjörn úrslit en leikurinn var þó mun ójafnari en úrslit gefa til kynna. Að mínu mati er liðið að sýna allar sínar bestu hliðar hér á mótinu.

Í síðari leik dagsins var leikið gegn norsku liði sem heitir því þjála nafni Mandalskameratene FK. Sá ég ekki leikinn en stuðst er við munnmæli. Munu drengirnir hafa haft algjöra yfirburði en létu sé nægja að skora átt mörk og halda hreinu. Um markaskorun sáu Gylfi Karl 3, Alex 2, Atli 1, Kjartan 1 og Tristan 1. Mun afar gott flæði hafa verið á knettinum og leikin hápressa. Munu hinir norsku aldrei hafa átt möguleika og sigurinn síst of stór.

Framangreind úrslit þýða að lið B-14 leikur í 32 liða A-úrslitum sem hefjast í fyrramálið. Verður spennandi að fylgjast með því.

Þegar orð þessi eru rituð hljómar hér hávær hljómlist og söngur á gistað. Eru það einkum norskir drengir sem sjá um það. Hér er því líf og fjör.

Dagurinn í dag var í einu orði sagt frábær og allir skemmtu sér afar vel. Kepptust liðin við að styðja hvert annað og ótrúlegt fjör var á leikjum Álftaness. Segja má að stuðningsmennirnir hafi verið algjörlega óstöðvandi. Munnmæli herma að brot af hinu besta megi berja augum á fésbók.

Læt þetta duga að sinni.

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.

Dana cup – dagur tvö

Sæl, öllsömul!

Þá er dagur að kvöldi kominn hér í Danmörku, annar dagur okkar hér á Dana cup og var hann ekki síðri en sá fyrsti hvað veður varðar – sól og tæplega 30 gráðu hiti.

Tókum daginn ekkert sérlega snemma að þessu sinni enda dagurinn þar á undan langur. Annað verður uppi á teningnum á morgun, miðvikudag, en keppni mun þá hefjast snemma og ljúka seint.

Öll liðin léku í dag og urðu úrslit eftirfarandi:

Stúlkur, G-14
Álftanes – Stabæk FB: 0-10.

Drengir, B-13
Álftanes – Bjerke-Nannestad FK: 0-4.

Drengir, B-14
Álftanes – Lillestrøm: 4-0 (Alex Þór 2, Atli 1, Gylfi Karl 1).

Hjá stúlkunum var á brattann að sækja þar sem att var kappi við norska liðið Stabæk FB sem er nokkuð þekkt félag með mikla knattspyrnuhefð. Þar var enginn frændsemi á ferðinni og sáu okkar stúlkur aldrei til sólar gegn sterkum og sprækum Stabæk-stúlkum sem skoruðu hvert markið á fætur öðru. Mörkin urðu tíu talsins og gefa þau úrslit nokkuð rétta mynd af gangi leiksins. Stabæk-stúlkur höfðu á að skipa hröðu og jöfnu liði þar sem leikin var hápressa og ekki tomma gefin eftir, allt frá upphafsmínútu til hinnar síðustu. Um dæmigert norskt lið var að ræða þar sem ekki fór sérlega mikið fyrir stuttu spili heldur háum og löngum spyrnum sem allar höfðu að markmiði að fara í átt að markinu.

Drengirnir í liði B-13 (yngra árs lið) lék gegn norska liðinu Bjerke-Nannestad FK. Um áhugamannafélag er að ræða sem ég veit lítið um, að öðru leyti en því að liðið mun hafa verð stofnað árið 1936 og hafði öflugt stuðningsmannalið þar sem kúabjöllur hljómuðu í sífellu. Um nokkuð jafnan og spennandi leik var að ræða, einkum framan af. Um baráttuleik var jafnframt að ræða þar sem fá marktækifæri litu dagsins ljós, einkum í fyrri hálfleik. Undir lok hálfleiksins náðu Norðmennirnir að skora slysalegt mark og stóð 0-1 í leikhléi, Bjerke í vil. Í síðari hálfleik voru okkar drengir mun sprækari framan af en náðu þó ekki skapa sér nein marktækifæri. Þurftum við að taka áhættu og breyttum í þriggja manna vörn. Við það galopnaðist leikur liðsins sem norska liðið náði að nýta sér og skora þrjú mörk á síðustu fimm mínútum leiksins. Lyktir urðu því 0-4, Bjerke í vil. Að mínu mati gefa þau úrslit ekki rétta mynd af gangi leiksins sem var mun jafnari en svo. Drengir náðu á hinn bóginn ekki að skapa sér nægjanlega góð marktækifæri og luku ekki sóknarlotum með markskoti. Því fór sem fór.

Um leik drengjanna í liði B-14 (eldra árs lið) rita ég eftir munnlegum heimildum. Um frábæran leik mun hafa verið að ræða þar sem leikið var gegn norska liðinu Lillestrøm sem er nokkuð þekkt félag sem allnokkrir Íslendingar hafa leikið með í gegnum tíðina. Okkar drengir munu hafa hafið leikinn af krafti og náðu að stjórna honum, stjórn sem ekki var látin af hendi. Mun knötturinn hafa gengið hratt og vel drengja á milli og litu fjögur mörk dagsins ljós sem öll komu í fyrri hálfleik. Öll munu þau hafa verið glæsileg, þar af komu þrjú þeirra með markskotum fyrir utan vítateig sem er sérlegt ánægjuefni en okkar drengir hafa á stundum verið nokkuð sparsamir á markskot og hefur viljað loða við þá að vilja spila með stuttu spili inn í mark mótherjanna. Gerði Alex Þór tvö mörk, þar af eitt eftir einstaklingsframtak, Atli Dagur eitt og Gylfi Karl eitt. Að sögn heimildarmanna var um sanngjörn útslit að ræða og sigurinn síst of stór.

Þegar kappleikjum var lokið var snæddur kvöldverður og í framhaldi haldið á gististað. Þar er allt með kyrrum kjörum og þegar þessi orð eru rituð er allt komið í ró enda þurfum við að taka daginn snemma á morgun. Öll lið leika svo tvo leiki á morgun.

Utan knattspyrnuiðkunar ber einna hæst að taskan týnda er komin í leitirnar. Allt er gott sem endar vel en svo sannarlega var atvikið ekkert gleðiefni.

Læt þetta duga að sinni. Næst mun ég rita pistil seint annað kvöld eða fyrri hluta dags á fimmtudag.

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.

Dana cup – fyrsti dagur

Sæl, öllsömul!

Jæja, þá er fyrsta degi á Dana cup lokið. Hann fór að mestu í það að koma sér á staðinn og koma sér fyrir en engir kappleikir fóru fram í dag.

Flugið gekk vel en við vorum í afar góðum höndum flugmannsins Davíðs Torrini sem er, eins og kannski flestir vita, faðir Tómasar sem er einn drengja hér.

Sú gula tók á móti okkur í Danaveldi með tæplega 30 gráðu hita. Við tók svo rúmlega þriggja klukkustunda rútuferð sem gekk vel, að öðru leyti en því að þegar komið var á áfangastað skilaði ein taska sér ekki. Vonandi kemur hún í leitirnar hið fyrsta.

Dvalarstaður okkar, sem er skólabygging, er eilitla vegalengd frá mótstað en við erum hér ásamt liðum frá öðrum Norðurlöndum, einkum Svíþjóð og Noregi, bæði stúlkum og drengjum. Vegna þess hve seint við komum gafst ekki ráðrúm til að fylgjast með setningu mótsins sem fór fram síðdegis. Hins vegar fórum við og fengum okkur að borða, skoðuðum okkur aðeins um á aðalsvæðinu og skráðum liðin inn, eins og það er kallað. Kvöldið fór svo i „rólegheit“ hér á dvalarstað okkar, að undanskildum þremur burðarmönnum sem þurftu að fara nokkra vegalengd að sækja kost.

Kappleikir hefjast svo á morgun, þriðjudag, og er mikil eftirvætning hjá öllum. Leika öll lið eftir hádegi.

Þegar þessi orð eru rituð eru allir sofnaðir nema ég, sem sit við skriftir. Pistill þessi átti að koma fyrr en vegna slaks Internetssambands gekk ekki að tengjst. Mun það stafa af miklu álagi á Internetinu hér á gististað. Af þessum sökum munu daglegir pistlar því að öllum líkindum birtast nokkuð seint. Vonandi kemur það ekki að sök.

Á morgun mun svo ég rita stuttan pistil, þar af fjalla um kappleikina þrjá.

Með kveðju frá Dana cup,
Birgir Jónasson þjálfari.

Æfingaleikur í 11 manna knattspyrnu á miðvikudag

Sæl, öllsömul!

Á miðvikudag, 17. júlí, verður æfingaleikur við Breiðablik í 11 manna knattspyrnu. Um ræðir undirbúning fyrir Dana cup mótið í Danmörku. Leikur þessi hefst kl. 15:30 og þurfa stúlkur að gera ráðstafanir til þess að komast á umræddum tíma en ekki var um annan leiktíma að ræða vegna þéttrar dagskrár á vellinum. 

Þær stúlkur eru boðaðar sem eru að fara til Danmerkur og eiga þær að mæta á leikstað kl. 15 umræddan dag, fullbúnar til leiks.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.