Leikið í Íslandsmóti á morgun, miðvikudag

Sæl, öllsömul!

Leikið verður í Íslandsmóti á morgun, miðvikudag, 10. júlí. Fyrirkomulag verður með sama sniði og síðast, þ.e. leiknir verða þrír leikir, nánast í einni samfellu, við Aftureldingu, Grindavík og Gróttu, en leikið verður í Grindavík að þessu sinni. 

Leikjar hefjast kl. 16 og þurfa stúlkur að vera mættar á leikstað eigi síðar en kl. 15:15. Mæting er við íþróttahúsið á Álftanesi kl. 14:15 en lagt verður af stað í framhaldi. Farið verður á einkabifreiðum og eru þeir foreldrar/forráðamenn sem hyggjast leggja til bifreiðar hvattir til þess að staðfesta það hér inni á heimasíðunni. 

Allar stúlkur flokksins eru boðaðar en fyrirsjáanleg eru nokkur forföll. Af þeim sökum eru þrjár stúlkur úr 5. aldursflokki boðaðar að þessu sinni, þ.e. Hekla, Sylvía og Veronika. Öll frekari forföll ber að tilkynna um. 

Stúlkur þurfa að gæta þess að taka með sér nesti því keppni sem þessi krefst mikillar orku. Þá eru stúlkur hvattar til þess að taka með sér vatnsbrúsa.  

Birgir og Guðbjörn þjálfarar. 

Íslandsmót

Komið þið sæl.

Hér koma úrslit úr Íslandsmóti hjá stelpunum sem fór fram á Tungubökkum í Mosfellsbæ miðvikudaginn 19.júní.

Grindavík - Álftanes 2-5 (Salka 2, Snædís 1, Ída 2)

Afturelding - Álftanes 1-4 (Salka 2, Ída 1, Sara 1)

Grótta - Álftanes 0-1 (salka)

Yfir heildina er ég ánægður með leiki okkar í mótinu við byrjuðum frekar róglega en unnum okkur vel inn í leikina þegar leið á daginn.
Vörninn var öflug og eins var Aldís að verja vel í markinu og vorum við alltaf hættulegar fram á við.
Eins var gaman að sjá að stelpurnar gáfu sig allar í þetta og héldu áfram á háu tempói allan tíman í öllum leikjum
þótt að þreyttan væri orðinn mikil í síðasta leikunum en þær fengu lítla sem enga pásu fyrir þann leik.

Kv Guðbjörn þjálfari

Smábæjarleikarnir á Blönduósi - stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Við þjálfarar ætlum þá að fara nokkrum orðum um Smábæjarleikana á Blönduósi sem fram fóru um helgina. Mótið var vel heppnað og umgjörð almennt til fyrirmyndar. Ekki spillti frábært veður fyrir.

Álftanes tefldi fram tveimur liðum hjá 4. flokki stúlkna, Álftanesi 1 og 2, en leikin var sjö manna knattspyrna. Keppni fór fram í einum riðli en alls mættu fimm lið til keppni. Leikin var tvöföld umferð og lék því hvort lið alls átta leiki sem er mjög mikið.

Úrslit hjá liðum Álftaness urðu eftirfarandi (upplýsingar um markaskorara innan sviga):

Laugardagur
Álftanes 1 – Skallagrímur: 3-1 (Ída 1, Salka 1, Snædís 1).
Álftanes 1 – Dalvík: 0-1.
Álftanes 1 – Hvöt: 1-2 (Snædís).
Álftanes 1 – Álftanes 2: 4-2 (Salka 2, Ída 1, Snædís 1).

Álftanes 2 – Skallagrímur: 0-1.
Álftanes 2 – Dalvík: 0-3.
Álftanes 2 – Hvöt: 0-5.
Álftanes 2 – Álftanes 1: 2-4 (Anna Bríet 1, Selma 1).
Álftanes 2 – Skallagrímur: 0-2.

Sunnudagur
Álftanes 1 – Skallagrímur: 3-1 (Salka 3).
Álftanes 1 – Dalvík: 3-1 (Salka 2, Snædís 1).
Álftanes 1 – Hvöt: 3-0 (Salka 3).
Álftanes 1 – Álftanes 2: 6-0 (Salka 4, Ída 2).

Álftanes 2 – Dalvík: 0-1.
Álftanes 2 – Hvöt: 2-0 (Linda 1, Selma 1).
Álftanes 2 – Álftanes 1: 0-6.

Úrslit þessi tryggðu liði Álftaness 1 sigur á mótinu og liði Álftaness 2 fimmta sæti. Um svolítið sérkennilegt samspil var að ræða en Álftanes 1 var í fjórða sæti eftir fyrri leikdag með sex stig og lið Álftaness 2 í því fimmta með ekkert. Lið Hvatar var þá með fullt hús stiga, 15 stig, en liðið hafði þá leikið fimm leiki og unnið þá alla. Frábær spilamennska liðs 1 síðari daginn og frækinn sigur liðs 2 á Hvöt skópu það að lið Álftaness 1 stóð uppi sem sigurvegari mótsins á stigamun en lið Hvatar sigraði ekki leik síðari daginn, eitthvað sem ekki var séð fyrir eftir fyrri leikdag.

Heilt yfir erum við þjálfarar afar ánægðir með frammistöðu stúlknanna sem léku á köflum hreint frábærlega og unun var að fylgjast með þeim. Gildir það um bæði lið. Grunnatriði voru í mjög góðu lagi, s.s. móttaka knattar, sendingar, samvinna tveggja manna (ekki síst veggspil), skipulag varnar og sóknaruppbygging. Þá var mörgum sóknum lokið með markskoti, einkum síðari daginn, sem er afar gott. Þá var áberandi að bæði lið héldu ávallt skipulagi þrátt fyrir mótlæti, þ.e. ávallt var haldið áfram að spila knettinum og ekki örvænt. Að mati okkar þjálfara voru það lið Álftaness sem voru áberandi best spilandi liðin á mótinu. Ekki verður þó tekið af liði Skallagríms að það var einnig léttleikandi.  

Að lokum viljum við þakka ykkur öllum fyrir frábært mót og prýðilegt samstarf.

Foreldrar/forráðamenn fá sérstakt hrós fyrir að fjölmenna á mótið en afar ánægjulegt var að upplifa stuðninginn og samstöðuna.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Smábæjarleikar á Blönduósi - tilhögun

Sæl, öllsömul!

Hér koma nokkrar hagnýtar upplýsingar fyrir Smábæjarleikana á Blönduósi sem fram fara 22. og 23. júní nk. Að öðru leyti skal vísað til heimasíðu mótsins sem er að finna undir slóðinni: http://www.hvotfc.is/index.php?pid=226. Þar eiga allar helstu upplýsingar að vera um mótið. Athygli er þó vakin á því að „leikjaplan“ liggur ekki fyrir og mun það, af fenginni reynslu, væntanlega ekki liggja fyrir fyrr en síðari hluta dags á föstudag.

Iðkendur, þjálfarar og eftir atvikum foreldrar/forráðamenn munu gista saman á þeim stað sem þeim verður úthlutaður til gistingar af móthaldara en þegar þessi orð eru rituð liggur ekki fyrir hver sá staður verður. Athygli er vakin á því að ráðgert er að móðir/mæður muni gista hjá stúlkunum en aðeins ein móðir hefur boðið sig fram til þess starfa. Æskilegt væri ef fleiri gætu komið þannig að sá hinn sami þurfi ekki að gista nema þá aðra nóttina.

Ráðgert er að Álftanes tefli fram tveimur liðum hjá 4. flokki stúlkna í mótinu. Gerð verður sérstaklega grein fyrir liðsskipan þegar á mótstað er komið. Á þessari stundu liggur ekki fyrir endanlegur fjöldi stúlkna en allt stefnir í að allt að 17 stúlkur muni taka þátt. Aldís mun leika í marki hjá báðum liðum nema þegar liðin leika samtímis eða innbyrðis, þá þarf einhver að hlaupa í skarðið hjá öðru liðinu. Mótstjórn hefur heimilað þetta sem og heimild fyrir tvær stúlkur í 3. aldursflokki að leika með liðum Álftaness.   

Iðkendur þurfa sjálfir að koma sér á leikstað og þurfa að vera komnir á Blönduós eigi síðar en kl. 22 á föstudag (21. júní) eða kl. 8 á laugardag (22. júní). Við það tilefni verður armböndum úthlutað. Þjálfarar munu sjálfir líklega koma á svæðið rétt fyrir kl. 22 á föstudag. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að skipuleggja sig innbyrðis og eftir atvikum í samráði við þjálfara svo tryggja megi að allir komist á áfangastað.

Samkvæmt venju leggja þjálfarar á það áherslu að iðkendur neyti hollrar fæðu meðan á móti stendur. Af því leiðir að gos, sælgæti og annað fæði af slíkum toga verður bannað meðan á keppni stendur, nema um verði að ræða einhverjar uppákomur í tengslum við mót. Þjálfarar leggja á það áherslu iðkendur hvílist vel og verði lagstir til hvílu eigi síðar en kl. 23 (í ró í hálfri klukkustund fyrr) og komnir á fætur eigi síðar en kl. 7:30 árdegis (veltur það á því hvenær leikið er).

Þá leggja þjálfarar áherslu á að iðkendur sýni prúðmennsku og háttvísi, jafnt innan sem utan vallar. Strangt verður tekið á öllum agabrotum og uppákomum, sem ekki þykja við hæfi á íþróttamóti. Athygli er vakin á því að heimilt verður að hafa GSM-farsíma og iPod með í för. Þá skal minnt á að góð bók er gulli betri og eru iðkendur hvattir til að hafa slíkan kost meðferðis. Venju samkvæmt ráðgera þjálfarar að hafa bók/bækur um íþróttatengt efni með í för og stefnt verður á upplestur úr því efni fyrir svefn.

Innifalið í þátttökugjaldi er fæði fyrir hvern iðkanda, ef undan er skilin kvöldhressing á föstudag og laugardag og miðdegishressing á laugardag (veltur þó nokkuð á þörf hvers og eins). Iðkendur þurfa að kaupa sér eitthvert léttmeti í matvörsluverslun bæjarins í þau skipti, t.d. ávexti, brauðmeti og/eða jógúrt. Að mati þjálfara er hæfilegt að iðkendur hafi að hámarki 3.500 krónur meðferðis til þess arna. Þátttökugjald fyrir hvern iðkanda 8.500 krónur, auk staðfestingargjalds sem er 10.000 krónur á lið og skiptist jafnt niður. Mótsgjald verður greitt úr sameiginlegum sjóði flokksins en þeir iðkendur sem ekki eiga hlutdeild í sjóðnum munu þurfa að gera upp við sjóðinn eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi um mánaðamót.

Mælst er til að iðkendur mæti í fatnaði merktum Álftanesi og klæðist honum meðan á móti stendur eða a.m.k. á keppnissvæði. Þá er enn fremur mælst til að iðkendur hafi meðferðis bláar stuttbuxur og bláa sokka, þar sem slíkur fatnaður er ekki útvegaður af félagi.

Athygli skal vakin á því að iðkendur þurfa enn fremur að hafa meðferðis eftirfarandi búnað:

*Allan búnað til knattspyrnuiðkunar.
*Sundföt og handklæði (tvö til þrjú stk.).
*Dýnu, kodda og sængurföt (lak og sæng eða svefnpoki), auk teppis undir dýnu.
*Föt til skiptanna (s.s. buxur, sokkar og nærbuxur).
*Skó til skiptanna (þ. á m. inniskó).
*Hreinlætisvörur (s.s. sjampó, tannbursta, tannkrem).
*Vatnsbrúsa.

Vonandi munum við svo eiga skemmtilega og eftirminnilega helgi fyrir höndum.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.