Álftanes - Þróttur: 3-1

Sæl, öllsömul!

Ég ætla að fara nokkrum orðum um leik Álftaness og Þróttar í Íslandsmóti í 11 manna knattspyrnu sem fram fór við hálfnepjulegar aðstæður á Bessastaðavelli í þarsíðustu viku. Um var að ræða síðasta leik liðsins í Íslandsmóti á heimavelli.

Um nokkuð einkennilegan leik var að ræða þar sem hraðinn var ekki ýkja mikill, einkum framan af, en Þróttarar lágu mjög til baka og vörðust aftarlega á vellinum og á mörgum mönnum. Okkar drengir eru nokkuð óvanir að leika við slíka mótherja og virtust nokkuð lengi í gang af þeim sökum. Nokkuð gegn gangi leiksins náðu Þróttarar að skora fyrsta mark leiksins. Eftir það náðu okkur drengir áttum og tvö mörk komu með skömmu millibili síðari hluta hálfleiksins, fyrst Gylfi Karl og svo Atli Dagur. Bæði mörkin voru mjög góð. Stóð 2-1 í leikhléi, Álftanesi í vil.

Í síðari hálfleik voru okkar drengir mun sterkara liðið á vellinum en náðu þó aðeins að bæta við einu marki á þess að Þróttarar næðu að svara fyrir sig. Þar var Örvar miðvörður á ferð með mark beint úr aukaspyrnu af ca 40 metra færi. Okkar drengir voru mun nær því að bæta við en Þróttarar að minnka muninn það sem eftir var. Lyktir urðu því 3-1, okkar drengjum í vil.

Heilt yfir var ég ánægður með leikinn og frammistöðuna, einkum í ljósi þess að nokkur forföll voru. Drengirnir sýndu það hins vegar að það kemur maður í manns stað og voru hvergi bangnir.

Birgir Jónasson þjálfari.

Úrslitakeppni Íslandsmóts í sjö manna knattspyrnu - tilhögun

Sæl, öllsömul!

Á morgun, laugardag, 24. ágúst, verður leikið í úrslitakeppni Íslandsmótsins í sjö manna knattspyrnu. Leikið verður á Blönduósi og er dagskrá eftirfarandi: 

  • Kl. 11:00:  Komið á Blönduós.
  • Kl. 12:00:  Álftanes - Tindastóll.
  • Kl. 14:30:  Álftanes - Leiknir R.
  • Kl. 17:00:  Álftanes - Kormákur/Hvöt.
  • Kl. 19:00:  Lagt af stað heim.

Ráðgert er að fara á einkabifreiðum og eru þeir foreldrar/forráðamenn sem hyggjast fara og lagt geta til bifreiðar vinsamlegast beðnir um að staðfesta það hér inni á síðunni eða hafa samband við mig eins fljótt og auðið er. Eins og staðan er núna hafa tveir staðfest við mig að fara. Þá mun þjálfari sjálfur fara á bifreið, gerist þess þörf. Hver iðkandi þarf að greiða eldsneytisgjald, 2.000 krónur, til þeirra sem leggja til bifreiðar.

Mæting er við íþróttahúsið á Álftanesi kl. 7:15 í fyrramálið og verður lagt af stað í framhaldi og helst eigi síðar en kl. 7:30. Ráðgerð heimkoma er um kl. 22 annað kvöld. 

Drengir þurfa að mæta með allan tiltækan búnað meðferðis, þ. á m. keppnisskyrtu. Ef einhver hefur ekki keppnisskyrtu þarf sá hinn sami að hafa samband við þjálfara. Drengir þurfa jafnframt að hafa föt til skiptanna meðferðis, sem og regnfatnað og sundföt. Þá þurfa drengir að hafa nesti meðferðis og peninga til þess að kaupa nesti/millibita á Blönduósi. Svolítið einstaklingsbundið er hvað hver og einn þarf en lagt er að drengir hafi 3.000 krónur í reiðufé til nestiskaupa.

Leikmannahópur hefur þegar verið kunngerður en vegna fyrirsjáanlegra forfalla hafa Daníel, Elías og Sævar verið kallaðir inn í hópinn. Öll frekari forföll ber að tilkynna, það auðveldar skipulagningu.

Loks er athygli vakin á því að um erfitt og krefjandi verkefni er að ræða. Af þeim sökum er leikmannahópur nokkuð fjölmennur. Allir munu hins vegar fá að spila en þó mögulega einhverjir meira en aðrir, eins og gengur. Veltur það á því hvernig leikir þróast. Reynsla mín af mótum sem þessum er að mun sterkari lið mæta til leiks en leika í Íslandsmóti, alltént í þeim tilvikum þar sem lið tefla ekki fram A-liði í Íslandsmóti. Svo er þó ekki háttað með lið Álftaness þar sem allir drengir sem boðaðir eru hafa leikið með sjö manna liðinu í sumar.

Birgir Jónasson þjálfari.

Breyttur æfingatími í dag

Sæl, öllsömul!

Athylgi er vakin á því að æfingin í dag, þriðjudaginn 20. ágúst, er frá kl. 17.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Úrslitakeppni Íslandsmóts í sjö manna knattspyrnu - leikmannahópur

Sæl, öllsömul!

Eftirfarandi drengir skipa leikmannahóp fyrir úrslitakeppni Íslandsmótsins í sjö manna knattspyrnu sem fram fer á Blönduósi á laugardag og sunnudag:

Alex Ó., Aron Logi (M), Bjarki Vattnes, Bolli Steinn, Elvar Ágúst, Gabríel E., Guðmundur Ingi (leikur úti), Hlynur G., Magnús Hólm, Matthías Helgi, Sigurður D., Tómas Torrini og Tristan Freyr.

Öll fyrirsjáanleg forföll ber að tilkynna. Ef forföll verða kemur Daníel inn í leikmannahóp.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.