Breiðablik - Álftanes 4-4

Sæl, öllsömul!

Við þjálfarar ætlum þá að fara örfáum orðum um leik Álftaness og Breiðabliks 2 sem fram fór í Fagralundi í Kópavogi fyrr í dag við sæmilegar aðstæður. 

Skemmst er frá að segja að um hörkuleik var að ræða þar sem okkar drengir byrjuðu mun betur og skorðu tvö mörk snemma leiks, fyrst Gylfi Karl eftir undirbúning frá Alex Þór og síðan hinn síðarnefndi úr vítaspyrnu. Framan af leik óðu okkar drengir í marktækifærum og hefðu auðveldlega getað skorað mun fleiri mörk. Þegar leið á hálfleikinn sóttu Blikar í sig veðrið, án þess þó að ná að skora í fyrri hálfleik. Bæði sköpuðu þeir sér fá marktækifæri og þá gerði Guðmundur afar vel í markinu. Stóð því 0-2 í leikhléi, Álftanesi í vil. 

Í síðari hálfleik voru Blikar mun beittari og náðu að skora tiltölulega snemma hálfleiks. Stuttu síðar náði Gylfi Karl að skora gott mark eftir frábæra sókn og staðan þá orðin 1-3. Blikar voru ekki af baki dottnir og náðu að setja tvö mörk og þá var staðan orðin 3-3 og allt í járnum. Atli Dagur skoraði svo frábært mark um það bil tíu mínútum fyrir leikslok. Blikar gáfust hins vegar ekki upp og náðu að jafna metin nokkrum mínútum síðar. Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi þar sem okkar drengir voru nær því að landa sigri en Blikar. Lyktir urðu 4-4, sem líklega teljast nokkuð sanngjörn úrslit. 

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna. Um var að ræða afar sterkt Blikalið og áttu okkar drengir í fullu tré við þá og rúmlega það. Hefðum við þjálfarar kannski viljað sá okkar drengi halda knettinum eilítið betur innan liðsins. Mjög góðir spilakaflar voru þó í leik liðsins inn á milli. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.