Álftanes - Stjarnan, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar við Stjörnuna á laugardag.

Á brattann var að sækja hjá okkur að þessu sinni, eins og við var að búast. Réðum við illa við hápressu Stjörnunnar og framan af náðum upp litlu spili. Af þeim sökum var mikið um feilsendingar. Mér fannst það lagast þegar á leikinn leið og einkum í síðari hálfleik náðum við að ógna marki Stjörnunnar nokkrum sinnum eftir góðan samleik. Náðum við að setja eitt mark í leiknum sem kom úr frábæru langskoti. Þar var Emilía á ferð.

Heilt yfir er ég sæmilega sáttur við frammistöðuna. Það er erfitt að spila við lið eins og Stjörnuna sem hefur á að skipa mörgum frambærilegum stúlkum og maður í raun veit maður aldrei hvaða liði maður er að fara mæta.

Við eigum mikið inni og úrslit leiksins fannst mér ekki gefa rétta mynd af gangi leiksins. Við þurfum að halda áfram stúlkur og reyna bæta okkur. Við getum það en gerist aðeins með markvissum æfingum, vinnusemi og jákvæðu hugarfari. Er alveg sannfærður um að við gerum betur næst.

Birgir Jónasson þjálfari.