Breiðablik 2 - Álftanes: 1-2, stutt umfjöllun

Sælar!

Ég ætla með nokkrum orðum að fara yfir leik Breiðabliks 2 og Álftaness í Faxaflóamóti sem fram fór í gær, fimmtudag. Leikur þessi fór fram við fremur slakar aðstæður í Fagralundi þar sem völlur var snævi þakinn og kalt var í veðri. Þá er leikvöllurinn ekki upphitaður.

Þrátt fyrir vallaraðstæður var leikurinn nokkuð vel leikinn af beggja hálfu og bæði lið reyndu að láta knöttinn ganga leikmanna á milli. Breiðablik sótti mun meiri en lið Álftaness lék agaðan, skipulagðan og þéttan varnarleik og Blikar fengu engan tíma með knöttinn á vallarhelmingi Álftaness, sem var í samræmi við hvernig leikurinn var settur upp. Á 10 mínútu leiks náði Perla að skora gott mark sem kom í framhaldi af aukaspyrnu við endalínu. Mjög gott að skora mark úr föstu leikatriði. Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik var lið Álftaness þétt og gaf engin færi á sér og Blikar náðu nánast ekkert að skapa sér. Stóð því 0-1 í leikhléi, Álftanesi í vil.

Í síðari hálfleik pressuðu Blikar stíft í byrjun en höfðu ekki erindi sem erfiði. Þegar á hálfleikinn leið varð lið Álftaness mun sókndjarfara og það skilað marki um miðjan síðari hálfleik. Þar var Elsa á ferð með stórglæsilegt mark sem kom eftir frábæra pressu fremstu manna framarlega á vellinum. Eftir það var lið Álftaness mun hættulegra og beitt ítrekuðum hættulegum skyndisóknum. Þrátt fyrir mikla pressu í lokin náðu Blikar lítið að skapa sér, fyrr en þremur mínútur fyrir leikslok að þær náðu að minnka muninn, en þá rétt áður hafði lið Álftaness átt tvær til þrjár úrvalssóknir. Þar við sat og urðu lyktir leiks 1-2, Álftanesi í vil.

Heilt yfir er ég mjög ánægður með frammistöðuna. Skipulagið gekk upp og leikurinn þróaðist nokkurn veginn eins og lið Álftaness vildi að hann þróaðist. Þá var ánægjulegt að sjá að eftir því sem á leikinn leið jókst sjálfstraust leikmanna, ekki síst sóknarlega, og liðið hélt knetti betur innan liðs. Það er mjög jákvætt. Leikur þessi er upphafið af fjögurra leikja runu kappleikja á níu dögum og það verður gaman að fylgjast með stúlkunum í næstu leikjum. Vonandi náum við í sameiningu að þróa leik liðsins til hins betra.

Birgir Jónasson þjálfari.