Æfingaleikur, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla að fara nokkrum orðum um æfingaleikinn við 2. flokk Stjörnunnar í gær, þriðjudag. Um var að ræða leik á nokkuð lágu „tempói“ enda markmiðið með leiknum fyrst og fremst að halda liðinu í leikæfingu og prófa nýja hluti fyrir komandi átök. 

Ég var sæmilega ánægður með spilamennskuna í fyrri hálfleik, ekkert meira en það, enda var mikið af tæknifeilum úti á vellinum, oft og tíðum undir engri pressu. Þá vantaði á köflum meiri þolinmæði í því að halda knetti innan liðs og of margar sendar voru fram á við, að mínu mati. Að einhverju leyti skrifast þetta á að mikið var um stöðuskiptingar innbyrðis og þá vorum við að prófa breytingar á leikskipulagi sem við þurfum að vinna áfram með. Mikilvægt er að átta sig á að það tekur tíma að þróa leikskipulag og það þarf að æfa og aftur æfa. Þrátt fyrir þetta stóð 2-0 í leikhléi sem er jákvætt.

Í síðari hálfleik var leikur okkar betri og knötturinn gekk betur. Þá var minna um stöðuskiptingar og horfið aftur til fyrra leikskipulags. Bæði mörk hálfleiksins voru góð en hefðu getað orðið mun fleiri. Þá var eina mark Stjörnunnar einkar fallegt mark en hæglega hefðu Stjörnustúlkur getað skorað fleiri mörk. Mörk Álftaness gerðu: Erna 3 og Oddný 1.  

Heilt yfir er ég nokkuð ánægður með frammistöðuna og ég sá marga jákvæða hluti. Fram til þessa höfum við einkum verið að vinna í leikskipulagi varnar og mér finnst vera komast nokkuð gott jafnvægi á það. Við þurfum hins vegar að vinna mun betur með sóknarleikinn því heilt yfir er hann ekki nægjanlega góður. Þegar ég tala um sóknarleik á ég við sóknarleik liðsins, þ.e. frá aftasta til fremsta manns. Í fyrsta lagi þurfum að vinna betur úr skyndisóknum í samvinnu tveggja, þriggja og fjögurra liðsmanna. Það vantar meiri hreyfingu þegar sótt er hratt upp völlinn og meiri dýpt, t.d. að nota breidd vallarsins. Í öðru lagi þurfum við að fækka snertingum inni á miðsvæði vallar en knötturinn þarf að flæða betur á því svæði þegar liðið hefur knöttinn. Í þriðja lagi þurfum við svo að reyna að sækja á fleiri mönnum. Reynir þar ekki síst á samvinnu útherja og bakvarða og/eða miðvallarleikmanna. Verður áhersla á þessi atriði á komandi vikum.  

Loks vil ég hrósa Stjörnustúlkum fyrir lipurt spil, sem og tveimur ungum drengjum frá Álftanesi, sem báðir leika með Stjörnunni, er önnuðust dómgæslu leiksins af stakri prýði.

Birgir Jónasson þjálfari.