Álftanes - Hvíti riddarinn, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við Hvíta riddarann fyrr í dag í Borgunarbikar KSÍ. Heilt yfir mjög góð frammistaða og í samræmi við það sem lagt var upp með. Átti þó ekki von á að yfirburðirnir væru slíkir eins og raun bar vitni.

Í fyrri hálfleik tók svolítinn tíma að brjóta ísinn en um leið og það gerðist má segja að allar flóðgáttir hafi opnast. Í síðari hálfleik var sama uppi á teningnum og mörkin komu eitt af öðru. Fimm mörk í fyrri hálfleik og fimm í hinum síðari. Í raun fádæma yfirburðir alls staðar á vellinum, ekki aðeins í markaskorun. Mörkin gerðu: Erna 4, Eyrún 2, Oddný 2, Margrét Eva 1 og Perla 1. Mörg glæsileg mörk og nokkuð mikil fjölbreytni í tegundum marka. Enn fremur ánægjulegt að sjá fimm stúlkur skora.

Það sem ég er ánægðastur með er að liðið hélt sínu striki allan tímann og ekki var vikið frá því sem var lagt upp með, þ.e. stutt spil frá aftasta til fremsta manns og mikið af góðum spilaköflum sem m.a. voru að skila okkar frábærum mörkum. Þá voru miðvallarleikmenn að nota færri snertingar en oft áður en á það höfum við lagt mikla áherslu (og munum gera). Gaman að sjá þegar hlutirnir ganga upp. Þá finnst mér sjálftraust og tiltrú margra stúlkna hafa aukist á ekki ýkja löngum tíma.  

Hefði viljað sjá eilítið betri nýtingu á marktækifærum, einkum á fyrstu 25 mínútunum, og meira sóknarframlag frá bakvörðum í leik sem þessum. Hvað síðara atriðið varðar höfum við kannski ekki æft það nægjanlega vel.  

Hvíti riddarinn fær hrós fyrir að reyna að leika knattspyrnu og ekki hleypa leiknum upp en eins og gefur að skilja er ekki auðvelt að spila leik sem þennan. Þær eru hins vegar með nýstofnað lið sem tekur tíma að slípa til og leikur þeirra mun ekki gera annað en batna.

Næsti leikur í Borgunarbikar er svo gegn Augnablik mánudaginn 18. maí nk. Það verður talsvert öðruvísi leikur ráðgeri ég enda Augnablik með sterkt lið. Munum við hefja undirbúning okkar fyrir þann leik strax á morgun.  

Birgir Jónasson þjálfari.