Álftanes - Hvíti riddarinn, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leikinn við Hvíta riddarann í gær.

Í stuttu máli var um ójafnan leik að ræða þar sem við réðum lögum og lofum allt frá fyrstu mínútu. Dagskipunin var að pressa mjög framarlega, mun framar en við höfum gert fram til þessa, þ. á m. í leikjum gegn Hvíta riddarnum, þar sem aftasta lína var við miðju.

Mikið var um opin færi i fyrri hálfleik og hreinlega óðu stúlkurnar í marktækifærum. Mörkin urðu fjögur í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað orðið mun fleiri en mörg afar góð marktækifæri fóru í súginn. Í fyrri hálfleik náði Hvíti riddarinn ekki skoti á okkar mark.

Í síðari hálfleik var sama uppi á teningnum, marktækifærin komu nánast á færibandi og mörkin að sama skapi. Þegar uppi stóð urðu mörkin 11 talsins án þess að Hvíti riddarinn næði svo mikið sem að ógna okkar marki. Mörk Álftaness gerðu: Erna 4, Guðrún Ingigerður 2, Eyrún 2, Katrín 1, Oddný 1 og Sigrún 1. Mörkin komu voru í öllum regnbogans litum, þar af komu fjögur eða fimm mörk eftir föst leikatriði.

Heilt yfir er ég mjög ánægður með leik stúlknanna. Þær stóðust prófið, ef svo má að orði komast, og léku eins og fyrir þær var lagt, allt frá fyrstu til síðustu mínútu. Það þarf talsverða leikni og klókindi að leika gegn liði sem er mun slakara og það er auðvelt að slaka á, leggja sig ekki allan fram og falla niður á sama plan og mótherjinn. Það gerðu stúlkurnar ekki. Á köflum var spilamennskan frábær, mikil ógn var af bakvörðum og mjög ánægulegt var að sjá hvernig miðvallarleikmenn leystu það þar sem í raun var leikið með tveggja manna vörn. Með þessu fyrirkomulagi náðum við að nota breidd vallarins vel. Þá fannst mér útherjar ná að opna vel fyrir hlaupaleiðir bakvarða með hlaupum í svæði. Eitt þeirra atriða sem lagt var upp með, hinar svonefndu sex sekúndur, fannst mér algjörlega ganga upp því leikmenn Hvíta riddarans fengu engan tíma með knöttinn og trekk í trekk gerðist það að leikmaður með knöttinn hafði enga möguleika að senda hann og oftar en ekki var því knettinum spyrnt út af. Þá var mjög skemmtilegt að sjá hve vel hornspyrnur voru útfærðar og að mínu mati engin tilviljun að mörk komu úr þeim. Hefði þó í nokkur skipti viljað sjá stúlkur taka auka- og hornspyrnur með stuttum spyrnum og hraðar.

Samtals léku 16 leikmenn og allir stóðu sig af miklum sóma. Afar ánægjulegt var að sjá að tvær stúlkur, sem var skipt inn á, náðu að skora í leiknum.

Birgir Jónasson þjálfari.