Snakksala í fjáröflunarskyni

Kæru foreldrar.

Á morgun miðvikudag ætlum við hafa Eurovision-snakksölu.

Vonumst til að fá nokkra foreldra með okkur kl 18:30 til að setja í poka, salan byrjar svo klukkan 20 og þá þurfa fleiri foreldrar að mæta til að
skutla strákunum um nesið.

Við verðum i Frístundarhúsinu (vallarhúsinu).

Það sem við erum að selja er Stjörnusnakk og einingin er 2 snakkpokar og 1 popppoki á 1.000 kr.

Við miðum við að selja 10 einingar per dreng. Þurfum að reyna að koma því út með öllum ráðum og því er um að gera að selja líka vinum og ættingjum.

Öll afkoma fer í einn pott og dreyfist á þá drengi sem taka þátt.

Vonast til að sjá sem flesta á morgun.

f.h. foreldraráðsins,

Hildur

862-9292

Tækniæfing í dag fellur niður

Sæl, öllsömul!

Það athugast að tækniæfing fellur niður í dag, uppstigningardag.

Birgir Jónasson tækniþjálfari.

Grótta 6 - Álftanes 4 - stutt umfjöllun um leik B-liðs

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleik Gróttu og Álftaness í sjö manna knattspyrnu sem fram fór á Gróttuvelli í gær, miðvikudag, við bestu aðstæður.

Um hörkuskemmtilegan og spennandi leik var að ræða þar sem Grótta náði forystu snemma leiks, gegn gangi leiks. Okkar drengir (og ein stúlka) sóttu í sig verðið og náðu að setja þrjú mörk í fyrri hálfleik, án þess að Grótta næði að svara því. Þar voru á ferð Salka með tvö og Guðmundur Bjartur eitt (að ég held). Stóð því 1-3 í leikhléi, Álftanesi í vil.

Í síðari hálfleik var leikurinn lengst af í járnum en þegar líða tók á leikinn var eins og flóðgáttir opnuðust fyrir mark Álftaness því Grótta náði að setja fimm mörg en Álftanes aðeins eitt. Mark Álftaness gerði Hlynur Gunnarsson. Fékk Álftanes urmul marktækifæra er ekki nýttust og því fór sem fór. Lyktir leiks urðu því 6-4, Gróttu í vil.

Heilt yfir er ég mjög sáttur við spilamennskuna og gefur þetta góð fyrirheit um Íslandsmótið í sjö manna knattspyrnu í sumar sem 4. flokkur drengja mun m. a. taka þátt í. Gott flæði var á knettinum og það eina sem hefði betur mátt fara var að nýta marktækifærin. Samtals mættu 15 iðkendur og það er kúnst að leika með svo marga iðkendur leika. Það tókst þó vel að mínum dómi.

Birgir þjálfari.

Æfingaleikur hjá B-liði á miðvikudag

Sæl, öllsömul!

Æfingaleikur er hjá B-liði á miðvikudag, 8. maí nk., kl. 17 þar sem att verður kappi við Gróttu í sjö manna knattspyrnu. Leikið verður á Gróttuvelli á Seltjarnarnesi.

Boðaðir eru til leiks allir þeir drengir sem ekki hófu leik hjá A-liði gegn Selfossi/Hamri/Ægi á laugardag, þ. e. bæði drengir sem voru skiptimenn í umræddum leik og þeir sem voru utan hóps. Frá þessu eru þær undantekningar að Guðjón Ingi og Magnús Hólm eru boðaðir en Bjarni Geir ekki. Þá eru báðir markverðir boðaðir en Guðmundur Ingi mun leika úti.

Drengir þurfa að vera mættir á leikstað um kl. 16:30, helst fullbúnir til leiks. Keppnisskyrtur verða afhentar á leikstað.

Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til þess að skipuleggja sig innbyrðis svo tryggt sé að allir komist á áfangastað. Gott væri ef þeir sem hyggjast fara, staðfesti það hér inni á heimasíðunni.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.