Breyting á dagskrá og „knattspyrnusprell“

Sælar, stúlkur!

Sú breyting verður á dagskrá vikunnar að fyrirhuguð æfing á miðvikudag flyst fram til þriðjudags, kl. 18. Er þetta vegna fyrirhugaðs „knattspyrnusprells“ sem ráðgert er fyrir iðkendur og foreldra í 5., 6., 7. aldursflokki stúlkna og meistaraflokk kvenna á miðvikudag, frá kl. 17:30 til 19.

Boða ég ykkur hér með á umræddan viðburð sem fram mun fara við grasvöllinn en boðið verður m.a. upp á grillaðar vínarpylsur (ekki verður boðið upp á drykki sérstaklega).  

Mikilvægt er að stúlkur sjái sér fært að mæta enda erum við, öll sem eitt, hluti af fyrirmyndum félagsins og það að vera sýnilegur og rækta samband við yngri iðkendur og foreldra/forráðamenn þeirra er brýnt.

Knattspyrnudeild stendur fyrir umræddu „knattspyrnusprelli“ en umsjónarmaður þess og skipuleggjandi er Guðbjörn Harðarson.

Birgir Jónasson þjálfari.

Dagskrá næstu viku, 24. til 30. ágúst, og nokkur orð um næstu skref

Sælar, stúlkur!

 

Dagskrá næstu viku verður eftirfarandi en við munum fækka æfingum úr fjórum niður í þrjár:

 

Mánudagur, kl.19:30, æfing (Bessastaðavöllur).

Miðvikudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).

Fimmtudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).

 

Árétta svo það sem ég hef áður sagt að ráðgert að hafa æfingar til ca 20. september (veltur svolítið á ástandi vallarins), taka svo hlé í ca þrjár til fjórar vikur og hefja svo æfingar á ný í 43. viku árs, þ.e. í vikunni 19. til 25. október.

 

Um mánaðamót september/október ráðgeri ég svo að boða til fundar með ykkur þar sem ég mun kynna fyrir ykkur drög að æfingaáætlun tímabils. Um verður að ræða drög þar sem nokkrir óvissuþættir eru, þ. á m. um atriði sem þurfa að koma frá ykkur, s.s. um mögulega æfingaferð o.fl.

 

Birgir Jónasson þjálfari.

Knattrak

Sælar, stúlkur!

Það er stundum sagt um knattrak að annaðhvort nærðu tökum á því eða ekki. Að ákveðnu leyti má fallast á það. Á hinn bóginn er það svo að knattspyrnumenn eru misgóðir að rekja knöttinn.

Undir eftirfarandi vefslóð má sjá hvernig nokkrir af hinum bestu hafa borið sig að við þessa iðju: https://www.youtube.com/watch?v=ALouroUFFkI. Sjón er sögu ríkari!

Birgir Jónasson þjálfari. 

Áhugaverðir heimildarþættir um íþróttaafrek

Sælar, stúlkur!

Vil vekja athygli ykkar á skemmtilegum heimildarþáttum í Ríkissjónvarpinu á miðvikudögum, Íþróttaafrek sögunnar, þar sem tekin eru fyrir einstök íþróttaafrek úr ýmsum íþróttum (minntist aðeins á þetta á æfingu í gær, fimmtudag).

Í þættinum á miðvikudag var m.a. fjallað um eitt atvik úr knattspyrnu, hið svonefnda „mark aldarinnar“. Það sem gerir mark þetta ekki síður merkilegt er að í sama kappleik var skorað annað mark sem stundum hefur verið nefnt óheiðarlegasta mark knattspyrnusögunnar en bæði mörkin voru skoruð af einum og sama knattspyrnumanni, sjálfum Diego Maradona.

Þáttinn má nálgast undir eftirfarandi vefslóð: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/ithrottaafrek-sogunnar/20150819. Skora á ykkur að horfa á hann (og þáttaröðina einnig).

Birgir Jónasson þjálfari.