Dagskrá næstu viku, 4. til 8. ágúst

Sælar, stúlkur!
 
Dagskrá þessarar viku verður eftirfarandi:
 
Þriðjudagur, kl.18, æfing (Bessastaðavöllur).
Miðvikudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).
Fimmtudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).
Föstudagur, kl. 19, leikur í Íslandsmóti gegn FH. Leikið í Kaplakrika.

Þá er ráðgert að æfa á sunnudag kl. 17 eða 18.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Fjölnir, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla að fara örfáum orðum um leik okkar við Fjölni í gær. Um skemmtilegan leik var að ræða sem var spennandi framan af.

Leikurinn þróaðist nokkuð öðruvísi en lagt var upp með en Fjölnisstúlkur pressuðu okkur mjög hátt á vellinum og komu okkur svolítið úr jafnværi í byrjun leiks með mikilli hörku og krafti. Eftir nokkurra mínútna leik náðum við vinna okkur inn í hann, náðum upp góðri pressu og urðum hættulegri og hættulegri. Í fyrri hálfleik voru nokkrir möguleikar fyrir okkur að skora en ekki mörg opin marktækifæri þó. Líklega fékk Erna besta marktækifæri hálfleiksins þegar hún komst ein gegn markverði sem braut gróflega á henni rétt fyrir utan vítateig. Líklega hefði verið kórréttast að vísa umræddum en annars mjög svo frambærilegum markverði Fjölnis af leikvelli. Það gerði dómarinn hins vegar ekki og fyrir leikinn var það, eftir á að hyggja, góð ákvörðun. Var því markalaust í fyrri hálfleik.  

Í síðari hálfleik var Fjölnisliðið betra framan af og okkar stúlkur féllu mjög aftarlega, mun aftar en ráðgert hafði verið. Eftir ca 15 mínútna leik í síðari hálfleik gerðist eitthvað í leiknum sem ég kann ekki að fullu skýringar á. Galopnaðist leikurinn í átt að Fjölnismarki og dundi hver skyndisóknin af annarri að marki þeirra. Var engu líkara en Fjölnisstúlkur hefðu hreinlega sprungið enda höfðu þær, fram að því, verið mjög kraftmiklar og duglegar. Náðum við að setja hvert markið á fætur öðru og hefðu mörk okkar, sem urðu fimm talsins, hæglega getað orðið fleiri. Lauk leiknum því með 5-0 sigri en þrjú markanna komu eftir frábærar skyndisóknir, eitt með marki úr langskoti (í framhaldi af skyndisókn) og loks eitt eftir fast leikatriði (hornspyrnu). Mörk Álftaness gerðu: Guðrún Ingigerður 2, Oddný 2 og Júlíana 1.

Heilt yfir er ég afar stoltur af ykkur stúlkur hvernig þið lukuð ykkur af þessu verkefni. Þetta var þó ekki okkar besti leikur úti á vellinum að mínu mati. Knötturinn var framan af ekki að ganga sérlega vel leikmanna á milli, við náðum ekki að sækja oft á bakvörðum í leiknum og það vantaði mun meiri yfirvegun í leik okkar. Það sem stendur hins vegar upp úr er leiftrandi sóknarleikur, einkum þá skyndisóknarleikur, sem var hreint út sagt frábær, þar sem allt gekk upp og færin nýttust frábærlega. Þá fannst mér liðið mjög agað og skipulagt og gaf fá færi á sér. Loks fannst mér mikil tiltrú og vilji í öllu liðinu sem skóp ekki síst sigurinn. Vissulega var sigurinn öruggur og þetta var aldrei spurning eftir að ísinn hafði verið brotinn. Úrslitin gefa þó kannski ekki fyllilega rétta mynd af leiknum, sé allrar sanngirni gætt.

Birgir Jónasson þjálfari.    

Leikur í Íslandsmóti, tilhögun

Sælar, stúlkur!

Á morgun, þriðjudag, verður leikið í Íslandsmóti þegar att verður kappi við Fjölni. Leikið verður á Bessastaðavelli og hefjast leikar kl. 20. Allar stúlkur sem mættu á æfingu í dag, auk Katrínar Ýrar, eru boðaðar.

Þurfa stúlkur að vera mættar kl. 18:30 á leikstað og hafa allan tiltækan búnað meðferðis, venju samkvæmt. Sjúkraþjálfari verður á staðnum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Dagskrá næstu viku, 27. til 30. júlí

Sælar, stúlkur!

 

Dagskrá næstu viku verður eftirfarandi en athygli er vakin á því að dagskráin riðlast svolítið vegna kappleikja yngri flokka á Besstaðavelli o.fl.:

 

Mánudagur, kl.18, æfing (Bessastaðavöllur).

Þriðjudagur, kl. 20, leikur í Íslandsmóti gegn Fjölni. Leikið á Bessastaðavelli.

Miðvikudagur, kl. 19:45, æfing (Bessastaðavöllur).

Fimmtudagur, kl. 18, æfing.

 

Frí verður frá æfingum um verslunarmannahelgina. Næsta æfing er svo þriðjudaginn 3. ágúst, kl. 18.

 

Birgir Jónasson þjálfari.