Æfing á sunnudag

Sælar, stúlkur!

Æfingin á sunnudag verður frá kl. 18. Reikna má með að æfingin verði krefjandi þar sem aðaláhersla verður á pressu.

Þá vek ég athygli á að vegna kappleiks á þriðjudag munum við væntalega æfa frá kl. 18 á mánudag. Sú æfing verður ekki á háu tempói og verður nokkuð sniðin að því leikskipulagi sem við munum leggja upp í næsta leik.

Birgir Jónasson þjálfari.

Víkingur Ólafsvík - Álftaness, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um leikinn við Víking Ólafsvík í gær. Leikið var á útivelli við ágætar aðstæður en fyrirfram vissum við að verkefnið yrði mjög krefjandi. Fórum við inn í leikinn með ákveðið skipulag og áætlun í huga.

Það er svolítið erfitt að lýsa andrúmsloftinu og leiknum í heild sinni enda var þetta nokkuð sérstakur kappleikur og mjög kaflaskiptur. Bæði náðum við hápressu á góðum köflum í leiknum, líkt og stefnt var að, en þess á milli féllum við mun lengra aftur á völlinn en ráðgert hafði verið. Við þá þróun gáfust færi á skyndisóknum sem margar hverjar voru stórhættulegar, svo ekki sé meira sagt.

Fyrsta mark leiksins kom eftir ca 20 mínútna leik en þar var Guðrún Ingigerður á ferð með skallamark eftir hornspyrnu. Frábært mark eftir vel útfært fast leikatriði. Vert er að taka fram að skömmu áður höfðum við átt hornspyrnu þar sem hársbreidd munaði að við næðum að skora. Á þeim tímapunkti leiks hafði Víkingur átt skot beint úr aukaspyrnu sem Þórdís hafði varið frábærlega í stöng. Eftir markið fannst mér við hafa yfirburði úti á vellinum og í raun tögl og hagldir í leiknum. Nokkrar frábærar sóknir litu dagsins ljós sem því miður náðu ekki að nýtast. Stóð 0-1 í leikhléi en hæglega hefði staðan getað verið 0-3 eða 1-3, okkur í vil.

Í síðari hálfleik sótti Víkingur í sig veðrið en náði lítið sem ekkert að skapa sér. Réði þar mestu um agaður varnarleikur, gott skipulega og mikil baráttugleði og vinnusemi. Upp úr miðjum síðari hálfleik náðum við frábærri skyndisókn sem Erna náði að ljúka með góðu marki. Í næstu sókn á eftir fékk Víkingur dæmda vítaspyrnu sem liðið skoraði úr. Eftir það var talsverð pressa að okkar marki og mikil háspenna. Víkingur náði þó ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri, að mestu var um að ræða föst leikatriði. Í lokin lagði Víkingur allt í sölurnar og við það opnuðust ítrekuð tækifæri fyrir okkar lið að beita skyndisóknum. Var það svo að síðustu mínútur leiksins gekk knötturinn marka á milli þar sem okkar stúlkur sáu um að skapa marktækifærin en gáfu engin færi á sér. Upp úr einni slíkri skyndisókn fengum við hornspyrnu sem við náðum að skora úr en þar var Oddný á ferð. Reyndist það vera síðasta spyrna leiksins og urðu lyktir 1-3, okkur í vil.

Heilt yfir fannst mér frammistaða stúlknanna framúrskarandi og skilaði það sanngjörnum sigri. Skipulagið var gott, aginn til staðar og áætlun okkar gekk eftir. Þá var ákefðin í leik okkar einnig til staðar og mikill vilji. Á köflum var gott flæði í leiknum og knötturinn gekk vel stúlkna á milli sem er mjög jákvætt á svo erfðum útivelli. Augljóst er að þrotlausar skilyrtar æfingar eru að skila sér betur og betur. Þá var sóknarleikurinn vel útfærður og ekki síst föst leikatriði. Njótið stundarinnar stúlkur og byggjum á þessu!

Birgir Jónasson þjálfari. 

Leikur í Íslandsmóti, tilhögun

Sælar, stúlkur!

Á morgun, fimmtudag, verður leikið í Íslandsmóti þegar att verður kappi við Víking Ólafsvík. Leikið verður í Ólafsvík og hefjast leikar kl. 19. Allar stúlkur sem mættu á æfingu í dag, auk Ólafar, eru boðaðar.

Farið verður með tveimur 11 manna bifreiðum og þurfa stúlkur að vera mættar að N1 við Ártúnshöfða kl. 14 en lagt verður af stað þaðan í framhaldi. Bið stúlkur um að hafa hollt og gott nesti meðferðis sem duga þarf fram að leik.

Loks vil ég biðja stúlkur um að hugsa vandlega um þau atriði sem við höfum rætt síðustu æfingar og hvernig við munum leggja leikinn upp.

Birgir Jónasson þjálfari.

Dagskrá næstu viku, 20. til 26. júlí

Sælar, stúlkur!

 

Dagskrá þessarar viku verður eftirfarandii:

 

Mánudagur, kl.19:30, æfing (Bessastaðavöllur).

Þriðjudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).

Miðvikudagur, kl. 18 (Bessastaðavöllur).

Fimmtudagur, kl. 20 (mögulega kl. 19), leikur í Íslandsmóti gegn Víkingi Ólafsvík. Leikið í Ólafsvík.

 

Þá munum við líklega æfa á sunnudag.

 

Birgir Jónasson þjálfari.