Fram - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um leikinn við Fram í gær.

Við hófum leikinn ekki nægjanlega einbeitt og áttum í vök að verjast fyrstu 20 mínúturnar sem var nokkuð annað en það sem við höfðum rætt um að gera. Það kostaði okkur mark sem að mínu mati var í ódýrari kantinum. Við megum þó prísa okkur sæl með að hafa ekki fengið á okkur annað mark á þessum leikkafla.

Um miðbik hálfleiks var eins og við vöknuðum til lífsins og þá varð þetta leikur. Engin afgerandi marktækifæri litu dagsins ljós í fyrri hálfleik, en ýmsir möguleikar þó sem hefðu e.t.v. getað nýst betur. Staðan 1-0 í leikhléi var því fullkomlega sanngjörn og mögulega hefði Fram getað verið með meiri forystu.

Í síðari hálfleik náðum við að bæta leik okkar til muna og vorum betra liðið á vellinum. Við vorum þó klaufar að ná ekki að nýta okkur það með meira afgerandi hætti og til þess að jafna leikinn. Því miður tókst það ekki og urðu lyktir leiks því 1-0, Fram í vil. Við voru hins vegar svo sannarlega nálægt því og af þeim sökum var þetta sárt.

Heilt yfir er ég sáttur við frammistöðuna, ef undan eru skildar fyrstu 20 mínúturnar sem voru afleitar, einkum varnarlega, þar sem alltof mikið bil var milli manna og við náðum ekki að valda samherja okkar. Síðari hálfleikur var mjög vel leikinn og sáust mjög góðir spilakaflar. Þá vorum við enn fremur með yfirhöndina á miðjunni og náðum að tengja vel milli varnar og miðju annars vegar og miðju og sóknar hins vegar.

Þetta var síðasti leikur Íslandsmótsins og eins og ég nefndi við ykkur getum við verið ánægð með afraksturinn, einkum ef litið er til þess hvernig staðan var um páska. Þá nefndi ég við ykkur að mikilvægt er að hafa lokið okkur af þessu verkefni. Það var stígandi í leik okkar í vor og sumar, þið hafið bætt varnarleikinn, bætt sóknarleikinn, eruð orðnar mun skipulagðari bæði varnar- og sóknarlega og það eru meiri gæði í leik ykkar á margan hátt, s.s. í móttöku knattar og sendingum. Við fengum nálega engin mörk á okkur úr föstum leikatriðum í sumar en skoruðum á hinn bóginn urmul marka með þeim hætti. Á vetri komandi munum við verða enn betri, í betri þjálfun, betur skipulögð, enn agaðri, tæknilega betri og síðast en ekki síst viljugri, hugrakkari og ástríðufyllri.

Hvílum um helgina og mætum galvösk á æfingu á mánudag kl. 19:30. Dagskrá næstu viku kunngerð hér inni á síðunni um helgina.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur í Íslandsmóti, tilhögun

Sælar, stúlkur!

Á morgun, miðvikudag, verður leikið í Íslandsmóti þegar att verður kappi við Fram. Um er að ræða síðasta leik í Íslandsmóti, þetta sumarið. Leikið verður á heimavelli Fram í Úlfarsárdal í Grafarholti og hefjast leikar kl. 18:30. Allar tiltækar stúlkur, sem æft hafa að undanförnu, eru boðaðar.

Þurfa stúlkur að vera mættar kl. 17 á leikstað og hafa allan tiltækan búnað meðferðis, venju samkvæmt. Stúlkur þurfa þó ekki að hafa keppnisskytur meðferðis þar sem leikið verður í varabúningum félagsins að þessu sinni þar sem mótherjar leika í bláum skyrtum. Sjúkraþjálfari verður svo á staðnum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Garrincha, áhugavert myndskeið

Sælar, stúlkur!

Vek hér athygli á skemmtilegu myndskeiði af brasilíska knattspyrnumanninum Mané Garrincha sem barst í tal á æfingu fyrr í dag í tengslum við gabbhreyfingar („Baggio-hreyfingin“): https://www.youtube.com/watch?v=JeYyx87NWrU.

Garrincha þessi er af mörgum talinn einn allra besti knattspyrnumaður sem uppi hefur verið en hann var m.a. kosinn næstbesti „Brassi“ síðustu aldar. Berjið augum mýktina og jafnvægið! Læt hljómlistina sem leikin er undir við myndskeiðið liggja milli hluta.

Fyrir áhugasama mæli ég eindregið með ævisögu Garrincha sem ber heitið „Garrincha: The Triumph and Tragedy of Brazil's Forgotten Footballing Hero“.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Grindavík, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við Grindavík í gær sem háður var við erfiðar aðstæður sem bitnaði á báðum liðum.

Nokkurt jafnræði var með liðum framan af fyrri hálfleik. Þegar á leikinn leið fannst mér Grindavík taka hann yfir og skapa sér mun meira. Leikurinn einkenndist þó af miklu þófi og erfitt var að hemja knöttinn vegna vinds sem stóð nokkurn veginn þvert á völlinn. Ágætir spilkaflar voru þó inni á milli hjá báðum liðum og úti á vellinum vorum við litlir eftirbátar. Rétt fyrir leikhlé náði Grindavík að skora eina mark leiksins sem nánar tiltekið kom úr síðustu spyrnu hálfleiksins. Um glæsilegt mark var að ræða þar sem knötturinn fór í stöng og inn. Stóð því 0-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var sama uppi teningnum, við náðum lítið að ógna þeim og marktilraunir og -tækifærin voru Grindvíkinga. Þá voru þær skrefinu á undan og héldu knetti betur innan liðs. Mér fannst við þó vera inni í þessum leik allan tímann og börðumst hetjulega gegn góðu liði. Lengra komust við ekki og Grindavík vann sanngjarnan sigur.

Heilt yfir er ég ánægður og stoltur af stúlkunum sem sýndu vilja og ástríðu í leik sínum og voru skipulagðar. Það dugði þó ekki til því að við mættum einfaldlega liði sem hefur að skipa fleiri góðum leikmönnum og reyndar liði sem hefur nokkrar afburðastúlkur innan sinna vébanda sem að mínu mati gerðu gæfumuninn. Það sem helst má gagnrýna er að stúlkur hefðu mátt vera aðeins hugrakkari í sóknarleik liðs sem var bitlaus. Mögulega vorum við of upptekin af því að verja mark okkar og fá ekki á okkur mörk og af þeim sökum tókum við ekki næga áhættu. Leikurinn var þó ekki settur upp þannig en stundum gerast hlutirnir öðruvísi en ætlað er, ekki síst í liðsíþrótt þar sem mörg atriði hafa áhrif á frammistöðu og mörg þeirra atriða hefur maður ekki fulla stjórn á, t.d. styrkleika mótherja.

Nú er bara að fara að hugsa um næsta leik. Æfingasókn var ekki nægjanlega góð í dag. Þá er að gera betur og næsta æfing er á sunnudag kl. 17.

Birgir Jónasson þjálfari