Leikur í Íslandsmóti, tilhögun

Sælar, stúlkur!

Á morgun, föstudag, verður leikið í Íslandsmóti þegar att verður kappi við FH. Leikið verður í Kaplakrika og hefjast leikar kl. 19. Allar tiltækar stúlkur, sem æft hafa að undanförnu, eru boðaðar.

Þurfa stúlkur að vera mættar kl. 17:30 á leikstað og hafa allan tiltækan búnað meðferðis, venju samkvæmt. Sjúkraþjálfari verður á staðnum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Áhugaverð heimasíða um kvennaknattspyrnu

Sælar, stúlkur!

Vil vekja athygli ykkar á skemmtilegri heimasíðu, www.soccerpoet.com, sem haldið er úti af bandarískum knattspyrnuþjálfara, Dan Blank. Dan þessi, sem er þrautreyndur í knattspyrnuþjálfun kvenna, hefur m.a. ritað nokkrar skemmtilegar bækur um knattspyrnu og knattspyrnuþjálfun með áherslu á kvennaknattspyrnu. Sjálfur á ég nokkrar af hans bókum.  

Vek sérstaka athygli á skemmtilegum myndskeiðum heimasíðunnar undir „Video Lessons“, þar sem tekin eru ýmis dæmi er tengjast umfjöllun úr bókum hans, Soccer IQ og Happy Feet. Skora á ykkur að kynna ykkur þetta en mörg af þessum atriðum eru mjög einföld en þó ekki svo einföld að ekki þurfi að vekja á þeim sérstaka athygli.

Birgir Jónasson þjálfari.

Þegar Danir lágu í því

Sælar, stúlkur!

Vek athygli ykkar á myndskeiði af einum skemmtilegasta knattspyrnuleik sögunnar, Spánn gegn Danmörku í úrslitum HM árið 1986. Myndskeiðið má sjá undir eftirfarandi vefslóð: https://www.youtube.com/watch?v=cQruos2SZuo.

Heimurinn stóð hreinlega á öndinni enda voru Danir á þeim tíma taldir mjög sigurstranglegir í keppninni. Úrslitin urðu hreint ótrúleg, ekki síst miðað við gang leiksins og spilamennsku liðanna í keppninni. Gammurinn, Emilio Butragueño, var í essinu sínu (sýndi hvers vegna hann bar viðurnefnið (með rentu)) og „til varð“ hin svonefnda „Jesper Olsen-sending“. Vek sérstaka athygli á sóknaruppbyggingu Dana, þ.e. hversu ofarlega miðverðir liðsins (sérstaklega Morten Olsen) komu með knöttinn og hversu mikinn þátt þeir tóku í sóknarleik liðsins en þetta var eitt af aðalsmerkjum liðsins.  

Fyrir áhugasama má svo kynnast nánar þessu danska liði með lestri bókarinnar Danish Dynamite: The Story of Football's Greatest Cult Team eftir Rob Smyth o.fl. sem til er á Amazon.

Birgir Jónasson þjálfari.   

Nýstárleg upphitun, sýnishorn

Sælar, stúlkur!

Má til með að vekja athygli ykkar á skemmtilegu myndskeiði af nýstárlegri upphitun knattspyrnumannsins Diego Maradona fyrir margt löngu. Ef ég man rétt sýndi ég einhverjum ykkur myndskeið þetta í vetur.  

Myndskeiðið má sjá undir eftirfarandi vefslóð: https://www.youtube.com/watch?v=s7ZjU-6iSwk.

Alveg makalaust að horfa á þetta og ekki síst fagran limaburðinn. Sjáið mýktina! 

Birgir Jónasson þjálfari.