Leikur í Íslandsmóti gegn Grindavík, tilhögun

Sælar, stúlkur!

Á morgun, miðvikudag, verður leikið í Íslandsmóti þegar att verður kappi við Grindavík. Leikið verður á Bessastaðavelli og hefjast leikar kl. 19. Allar tiltækar stúlkur, sem æft hafa að undanförnu, eru boðaðar.

Þurfa stúlkur að vera mættar kl. 17:30 á leikstað og hafa allan tiltækan búnað meðferðis, venju samkvæmt. Sjúkraþjálfari verður á staðnum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Breyttur æfingatími í dag

Sælar, stúlkur!

Vegna kappleikja hjá yngri flokkum á Bessastaðavelli í dag, þriðjudag, verðum við að æfa frá kl. 18:30 í stað 18.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Æfingin á morgun kl. 19:30

Sælar, stúlkur!

Mér varð aðeins á í messunni varðandi tímasetningu æfingar á morgun, mánudag. Æfingin er frá kl. 19:30 í stað 19:45.

Birgir Jónasson þjálfari.

FH - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leikinn við FH í gær. Fyrirfram vissum við að á brattann yrði að sækja enda FH með gott knattspyrnulið, mikla breidd og góða útkomu úr leikjum við Álftaness í gegnum tíðina.

Sú varð enda raunin og varð fyrri hálfleikur okkur mjög erfiður þar sem FH stjórnaði honum frá upphafi og okkar áform voru kæfð í fæðingu. Fyrsta mark leiksins kom eftir fimm mínútna leik en um dæmigerða FH sókn var að ræða þar bakvörður kom hátt upp á völlinn og hans sóknarframlag skóp mark. Atriði sem rætt hafði verið um að koma í veg fyrir, en, líkt og oft um knattspyrnu, auðveldara um að tala en í að komast. Skömmu eftir markið fengum við okkar eina afgerandi marktækifæri í leiknum sem ekki nýttist en forvitnilegt hefði verið að sjá hvernig leikurinn hefði þróast hefði það nýst. Eftir það var fyrir hálfleikur einstefna og við náðum engum takti. FH fékk vítaspyrnu sem Þórdís varði frábærlega. Nokkrum mínútum fyrir leikhlé náði FH svo að skora annað mark eftir frábæra sókn þar sem knötturinn gekk manna á milli frá aftasta manni. Stóð því 2-0 í leikhléi og hálfleikur að baki þar sem við vorum hreinlega yfirspiluð.

Í síðari hálfleik gekk mun betur og allt annað var sjá leik liðsins. Þorðu stúlkur að taka knöttinn niður og láta hann ganga. Mjög fínir spilakaflar sáust í síðari hálfleik og liðið þorði að halda honum innan liðs af yfirvegun. Fram á við var það þó ekki að skapa okkur nægjanlega mikið. Þá unnust mun fleiri návígi í síðari hálfleik en hinum fyrri. Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik en FH var mun nær því að skora. Okkur stúlkur léku hins vegar agaðan varnarleik og FH var ekki að fá mörg afgerandi marktækifæri. Lyktir urðu því 2-0, Fimleikafélaginu í vil.

Heilt yfir er ég sæmilega sáttur við leikinn. Fyrri hálfleikur var mjög slakur og að mínu mati skorti alla tiltrú á verkefnið. Sú vöntun á tiltrú olli því að stúlkur skorti þor að leika sinn leik af yfirvegun og af því leiddi að leikmenn tóku trekk í trekk rangar ákvarðanir, móttöku knattar var óbótavant og lítil hreyfing var á leikmönnum án knattar. Í síðari hálfleik komu þessi atriði og upp úr stendur að stúlkur gáfust ekki upp og héldu skipulagi. Niðurstaðan er hins vegar sú að við mættum ofjörlum okkar og töpuðum fyrir mun betra knattspyrnuliði sem hefur á að skipa fleiri góðum leikmönnum, eitthvað sem gott skipulag og agi náði ekki að brúa að þessu sinni.  

Tökum frí frá æfingu á morgun, sunnudag, og mætum galvösk á æfingu kl. 19:45 á mánudag.

Að gefnu tilefni vil ég segja eftirfarandi: Æfingalega séð var þessi og síðasta vika (eftir leikinn við Fjölni á þriðjudag) ekki nægjalega góð og alltof mikil forföll voru frá æfingum. Nú styttist í að keppnistímabili ljúki. Það er mikilvægt að við náum að ljúka því af reisn og sóma og æfum vel enda krefjandi leikir framundan. Ég vil því brýna fyrir stúlkum að mæta helst á allar æfingar og leggja sig allar fram á æfingum og ef stúlkur komast ekki æfingar að vinna það upp með einum eða öðrum hætti og ekki gera ekki neitt. Þriggja til fimm kílómetra hlaup gæti komið í stað æfingar eða interval hlaup. Muna stúlkur, hugsa um hagsmuni liðsins!

Birgir Jónasson þjálfari.