Mátunardagar/Aðalfundur

Komið þið sæl.

Mátunardagur fyrir Hummel-fatnað UMFÁ

Þriðjudaginn 16.apríl verður mátunardagur fyrir Hummel-fatnað hjá
UMFÁ. Mátunin fer fram á neðri gangi íþróttamiðstöðvarinnar frá kl.
17:00 til 19:00. Greiða skal fyrir fatnaðinn við pöntun. Við hvetjum
alla sem eiga eftir að kaupa Álftanes-búninginn til að nota tækifærið
og ganga frá því á þriðjudaginn.

Aðalfundur UMFÁ

Aðalfundur UMFÁ 2013 verður haldinn í hátíðasal íþróttamiðstöðvar
Álftaness fimmtudaginn 18.apríl kl. 20:00. Dagskrá: venjuleg
aðalfundarstörf.

Kveðja, stjórn UMFÁ

Úrslitakeppni Íslandsmótsins í Futsal innanhússknattspyrnu - stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Á laugardag, 7. apríl, var leikið í úrslitakeppni Íslandsmótsins í Futsal innanhússknattspyrnu. Leikið var í íþróttahúsinu á Álftanesi. Fjögur lið mættu til keppni, þ. e. Álftanes, Breiðablik, Fylkir og Snæfellsnes.

Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Álftanes – Snæfellsnes: 1-1 (Sylvía) 
Álftanes – Fylkir: 1-0 (sjálfsmark) 
Álftanes – Breiðablik: 0-1

Úrslit þessi tryggðu liði Álftaness annað sæti mótsins og silfurverðlaun. Frábær frammistaða hjá stúlkunum og til hamingju.

Heilt yfir erum við þjálfarar mjög ánægðir með frammistöðuna. Stúlkurnar léku agað, eins og fyrir þær var lagt. Besta lið mótsins, Breiðablik, varð Íslandsmeistari og það sem skildi á milli Álftaness og Breiðabliks var að heilt yfir hafði Breiðablik á að skipa fleiri stúlkum sem höfðu betri tök á ýmsum grunnatriðum knattspyrnunnar, s. s. móttöku knattar, sendingum og að halda knetti. Okkar stúlkur standa þeim hins vegar ekki langt að baki. Hvað önnur lið varðar þá stóðu okkar stúlkur þeim jafnfætis og rúmlega það. Athyglisvert var að sjá framgöngu okkar stúlkna gegn Fylki, sem þær töpuðu fyrir í undanriðli Futal Íslandsmótsins tvisvar sinnum fyrir um tveimur mánuðum, en Fylkir komst lítt áleiðis gegn skipulögðum leik okkar stúlkna.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Leikjum við Hauka í Faxaflóamóti frestað

Sæl, öllsömul!

Ráðgerðum leikjum í Faxaflóamóti gegn Haukum, sem fara áttu fram á laugardag, hefur verið frestað að ósk Hauka. Því miður!

Líklega munu umræddir leikir fara fram föstudaginn 19. apríl nk. Mun það skýrast þegar nær dregur. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar. 

Dósasöfnun í fjáröflunarskyni

Sæl, öllsömul!

Dósasöfnun í fjáröflunarskyni verður hjá 5. flokki stúlkna mánudaginn 8. apríl nk. Um hefðbundna söfnun verður að ræða sem hefst kl. 18 við áhaldahúsið á Álftanesi.

Miðar um söfnunina munu verða afhentir stúlkum á morgun, föstudag, eða um helgina (á laugardag eða sunnudag), sem og upplýsingar um hverfaskiptingu. Miðana þurfa stúlkur svo að bera út í hús eigi síðar en á sunnudagskvöld. Mun Guðbjörn Harðarson annast það að afhenda stúlkum miða en takist það ekki á morgun munu stúlkur verða boðaðar til þess að sækja miðana um helgina.

Við söfnun er gert ráð fyrir að foreldrar/forráðamenn útvegi kerrur og/eða stórar bifreiðar til þess að flytja dósir, venju samkvæmt.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.