Álftanes - Hvíti riddarinn, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við Hvíta riddarann fyrr í dag í Borgunarbikar KSÍ. Heilt yfir mjög góð frammistaða og í samræmi við það sem lagt var upp með. Átti þó ekki von á að yfirburðirnir væru slíkir eins og raun bar vitni.

Í fyrri hálfleik tók svolítinn tíma að brjóta ísinn en um leið og það gerðist má segja að allar flóðgáttir hafi opnast. Í síðari hálfleik var sama uppi á teningnum og mörkin komu eitt af öðru. Fimm mörk í fyrri hálfleik og fimm í hinum síðari. Í raun fádæma yfirburðir alls staðar á vellinum, ekki aðeins í markaskorun. Mörkin gerðu: Erna 4, Eyrún 2, Oddný 2, Margrét Eva 1 og Perla 1. Mörg glæsileg mörk og nokkuð mikil fjölbreytni í tegundum marka. Enn fremur ánægjulegt að sjá fimm stúlkur skora.

Það sem ég er ánægðastur með er að liðið hélt sínu striki allan tímann og ekki var vikið frá því sem var lagt upp með, þ.e. stutt spil frá aftasta til fremsta manns og mikið af góðum spilaköflum sem m.a. voru að skila okkar frábærum mörkum. Þá voru miðvallarleikmenn að nota færri snertingar en oft áður en á það höfum við lagt mikla áherslu (og munum gera). Gaman að sjá þegar hlutirnir ganga upp. Þá finnst mér sjálftraust og tiltrú margra stúlkna hafa aukist á ekki ýkja löngum tíma.  

Hefði viljað sjá eilítið betri nýtingu á marktækifærum, einkum á fyrstu 25 mínútunum, og meira sóknarframlag frá bakvörðum í leik sem þessum. Hvað síðara atriðið varðar höfum við kannski ekki æft það nægjanlega vel.  

Hvíti riddarinn fær hrós fyrir að reyna að leika knattspyrnu og ekki hleypa leiknum upp en eins og gefur að skilja er ekki auðvelt að spila leik sem þennan. Þær eru hins vegar með nýstofnað lið sem tekur tíma að slípa til og leikur þeirra mun ekki gera annað en batna.

Næsti leikur í Borgunarbikar er svo gegn Augnablik mánudaginn 18. maí nk. Það verður talsvert öðruvísi leikur ráðgeri ég enda Augnablik með sterkt lið. Munum við hefja undirbúning okkar fyrir þann leik strax á morgun.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Dagskrá næstu viku

Sælar, stúlkur!

Dagskrá næstu viku er eftirfarandi:

Mánudagur, kl. 20, æfing (Búrið og litli völlurinn).
Þriðjudagur, kl. 19:30, æfing (litli völlurinn).
Fimmtudagur, kl. 19, sameiginleg æfing með 2. flokki Stjörnunnar (litli völlurinn).
Föstudagur, frá kl. 16, æfingaferð (Þorlákshöfn).

Mögulegt er að við munum komast á Bessastaðavöll síðar í vikunni en eins og staðan er núna er ég ekki bjartsýnn á það.

Vek svo athygli á að á þriðjudag er ráðgert að birta drög að dagskrá æfingaferðar. Þurfum að útræða nokkur atriði áður.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur í Borgunarbikar KSÍ

Sælar, stúlkur!

Á sunnudag verður leikið í Borgunarbikar KSÍ og verða mótherjar Hvíti riddarinn. Leikið verður á Samsung-vellinum og hefjast leikar kl. 14.

Stúlkur þurfa að vera mættar á leikstað umræddan dag 12:30 með allan búnað meðferðis. Anna Hlín Sverrisdóttir sjúkraþjálfari kemur en hún mun vera með okkur í sumar, a.m.k. á heimaleikjum okkar.

Eftirfarandi stúlkur eru hér með boðaðar í umræddan leik en um ræðir þær stúlkur sem tiltækar eru: Þórdís Edda, Rut, Margrét Eva, Oddný, Guðleif Edda, Júlíana, Erna, Sigrún Auður, Perla, Eyrún, Guðlaug, Elsa, Sunna og Elín.

Loks vil ég biðja stúlkur um að vanda sig í undirbúningi fyrir umræddan leik í samræmi við það sem rætt var um á æfingu nú fyrr í dag.

Birgir Jónasson þjálfari.

Æfingaleikur, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla að fara nokkrum orðum um æfingaleikinn við 2. flokk Stjörnunnar í gær, þriðjudag. Um var að ræða leik á nokkuð lágu „tempói“ enda markmiðið með leiknum fyrst og fremst að halda liðinu í leikæfingu og prófa nýja hluti fyrir komandi átök. 

Ég var sæmilega ánægður með spilamennskuna í fyrri hálfleik, ekkert meira en það, enda var mikið af tæknifeilum úti á vellinum, oft og tíðum undir engri pressu. Þá vantaði á köflum meiri þolinmæði í því að halda knetti innan liðs og of margar sendar voru fram á við, að mínu mati. Að einhverju leyti skrifast þetta á að mikið var um stöðuskiptingar innbyrðis og þá vorum við að prófa breytingar á leikskipulagi sem við þurfum að vinna áfram með. Mikilvægt er að átta sig á að það tekur tíma að þróa leikskipulag og það þarf að æfa og aftur æfa. Þrátt fyrir þetta stóð 2-0 í leikhléi sem er jákvætt.

Í síðari hálfleik var leikur okkar betri og knötturinn gekk betur. Þá var minna um stöðuskiptingar og horfið aftur til fyrra leikskipulags. Bæði mörk hálfleiksins voru góð en hefðu getað orðið mun fleiri. Þá var eina mark Stjörnunnar einkar fallegt mark en hæglega hefðu Stjörnustúlkur getað skorað fleiri mörk. Mörk Álftaness gerðu: Erna 3 og Oddný 1.  

Heilt yfir er ég nokkuð ánægður með frammistöðuna og ég sá marga jákvæða hluti. Fram til þessa höfum við einkum verið að vinna í leikskipulagi varnar og mér finnst vera komast nokkuð gott jafnvægi á það. Við þurfum hins vegar að vinna mun betur með sóknarleikinn því heilt yfir er hann ekki nægjanlega góður. Þegar ég tala um sóknarleik á ég við sóknarleik liðsins, þ.e. frá aftasta til fremsta manns. Í fyrsta lagi þurfum að vinna betur úr skyndisóknum í samvinnu tveggja, þriggja og fjögurra liðsmanna. Það vantar meiri hreyfingu þegar sótt er hratt upp völlinn og meiri dýpt, t.d. að nota breidd vallarsins. Í öðru lagi þurfum við að fækka snertingum inni á miðsvæði vallar en knötturinn þarf að flæða betur á því svæði þegar liðið hefur knöttinn. Í þriðja lagi þurfum við svo að reyna að sækja á fleiri mönnum. Reynir þar ekki síst á samvinnu útherja og bakvarða og/eða miðvallarleikmanna. Verður áhersla á þessi atriði á komandi vikum.  

Loks vil ég hrósa Stjörnustúlkum fyrir lipurt spil, sem og tveimur ungum drengjum frá Álftanesi, sem báðir leika með Stjörnunni, er önnuðust dómgæslu leiksins af stakri prýði.

Birgir Jónasson þjálfari.