Álftanes - Sindri, 4-1, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Ég ætla að fara örfáum orðum um leik Álftaness og Sindra sem fram fór í Lengjubikar KSÍ í gær, sunnudag. Leikið var á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Framan af einkenndist leikurinn af mikilli baráttu þrátt fyrir að nokkuð snemma leiks kæmi í ljós að Álftanes var mun betra liðið á vellinum. Þegar u.þ.b. tíu mínútur voru liðnar fóru stúlkurnar að skapa sér marktækifæri, einkum þó hálffæri. Það var svo þegar líða fór á hálfleikinn að tvö mörk frá Álftanesi komu með skömmu millibili. Þar var Erna á ferð með nokkuð keimlík mörk þar sem hún náði að koma sér í góða stöðu, ein gegn markverði, og brást ekki bogalistin. Stóð því 2-0 í leikhléi, Álftanesi í vil. Mjög sanngjörn staða og síst of mikil forysta.

Í síðari hálfleik var í raun aðeins eitt lið á vellinum og eftir u.þ.b. fimm mínútna leik náði Oddný að skora gott mark eftir að hafa komist ein gegn markverði eftir frábæran undirbúning frá Sigrúnu. Eftir það var meira öryggi í leik Álftaness en þegar leið á hálfleikinn datt leikurinn aðeins niður og virtust stúlkur verða nokkuð værukærar. Um það bil tíu mínútum fyrir leikslok náði Sindri að minnka muninn, nokkuð gegn gangi leiksins, en um var að ræða gott mark eftir góða skyndisókn. Stuttu síðar náði Erna svo að skora sitt þriðja mark eftir að hafa komist ein gegn markverði, eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir flata vörn Sindra frá Sögu. Þar við sat og urðu lyktir leiks 4-1, Álftanesi í vil. Mjög sanngjarnt miðað við gang leiks og síst of stór sigur.

Heilt yfir var þetta góður leikur hjá stúlkunum. Góðir spilakaflar voru í leiknum þar sem stúlkur náðu að láta knöttinn ganga í fáum snertingum. Þá gerði aftasta lína ítrekað vel að taka knöttinn niður og spila honum frá vörninni. Stúlkurnar voru agaðar og skipulagðar varnarlega og gáfu fá færi á sér og Sindri fékk úr litlu að moða. Þá voru mörkin öll frábær og komu í raun eftir mjög einfalda hluti. Það sem helst mætti gagnrýna er að nokkuð mikið var um ónákvæmar sendingar undir lítilli pressu á köflum (eilítið óðagot) og leikur liðsins datt svolítið niður um miðbik síðari hálfleiks. Að mati þjálfara er stígandi í frammistöðunni og það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Næsta æfing er svo annað kvöld, þriðjudag, kl. 19:30, í Garðabæ. Þá er næsti kappleikur á miðvikudag, kl. 18:30, þegar att verður kappi við Fram á Framvelli en sá leikur er í Lengjubikar KSÍ.

Birgir Jónasson þjálfari.

Breiðablik 2 - Álftanes: 1-2, stutt umfjöllun

Sælar!

Ég ætla með nokkrum orðum að fara yfir leik Breiðabliks 2 og Álftaness í Faxaflóamóti sem fram fór í gær, fimmtudag. Leikur þessi fór fram við fremur slakar aðstæður í Fagralundi þar sem völlur var snævi þakinn og kalt var í veðri. Þá er leikvöllurinn ekki upphitaður.

Þrátt fyrir vallaraðstæður var leikurinn nokkuð vel leikinn af beggja hálfu og bæði lið reyndu að láta knöttinn ganga leikmanna á milli. Breiðablik sótti mun meiri en lið Álftaness lék agaðan, skipulagðan og þéttan varnarleik og Blikar fengu engan tíma með knöttinn á vallarhelmingi Álftaness, sem var í samræmi við hvernig leikurinn var settur upp. Á 10 mínútu leiks náði Perla að skora gott mark sem kom í framhaldi af aukaspyrnu við endalínu. Mjög gott að skora mark úr föstu leikatriði. Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik var lið Álftaness þétt og gaf engin færi á sér og Blikar náðu nánast ekkert að skapa sér. Stóð því 0-1 í leikhléi, Álftanesi í vil.

Í síðari hálfleik pressuðu Blikar stíft í byrjun en höfðu ekki erindi sem erfiði. Þegar á hálfleikinn leið varð lið Álftaness mun sókndjarfara og það skilað marki um miðjan síðari hálfleik. Þar var Elsa á ferð með stórglæsilegt mark sem kom eftir frábæra pressu fremstu manna framarlega á vellinum. Eftir það var lið Álftaness mun hættulegra og beitt ítrekuðum hættulegum skyndisóknum. Þrátt fyrir mikla pressu í lokin náðu Blikar lítið að skapa sér, fyrr en þremur mínútur fyrir leikslok að þær náðu að minnka muninn, en þá rétt áður hafði lið Álftaness átt tvær til þrjár úrvalssóknir. Þar við sat og urðu lyktir leiks 1-2, Álftanesi í vil.

Heilt yfir er ég mjög ánægður með frammistöðuna. Skipulagið gekk upp og leikurinn þróaðist nokkurn veginn eins og lið Álftaness vildi að hann þróaðist. Þá var ánægjulegt að sjá að eftir því sem á leikinn leið jókst sjálfstraust leikmanna, ekki síst sóknarlega, og liðið hélt knetti betur innan liðs. Það er mjög jákvætt. Leikur þessi er upphafið af fjögurra leikja runu kappleikja á níu dögum og það verður gaman að fylgjast með stúlkunum í næstu leikjum. Vonandi náum við í sameiningu að þróa leik liðsins til hins betra.

Birgir Jónasson þjálfari.

Fyrsti leikur í Lengjubikar á sunnudag

Sælar, stúlkur!

Fyrsti leikur í Lengjubikar KSÍ verður á sunnudag þegar att verður kappi við Sindra. Upphaflega átti leikurinn að fara fram kl. 12 umræddan dag en leiktíma hefur verið breytt til kl. 13.

Leikið verður á Samsung vellinum í Garðabæ og þurfa stúlkur að vera mættar á leikstað kl. 11:45. Sjálfur mun ég koma á svæðið um kl. 12. Stúlkur þurfa að hafa allan búnað tiltækan, þ. á m. keppnisskyrtur.

Allar stúlkur, sem skráðar eru í Álftanes og æft hafa að undanförnu, eru boðaðar. Líklega verður liðsuppstilling með svipuðum hætti og gegn Breiðabliki, með einu eða tveimur frávikum.

Bið stúlkur að sýna metnað og ábyrgð og ganga hægt um gleðinnar dyr um helgina, gæta að matarræði sem og svefni og hvíld. 

Birgir Jónasson þjálfari.

Tilkynning

Sælar, stúlkur!

Vil biðja ykkur um að fylgjast með síðunni í dag, miðvikudag, þar sem mögulegt er að leiktími fyrir kappleik í Faxaflóamóti, við Breiðablik, verði ákveðinn síðar í dag. Leikurinn færi þá fram annað kvöld, fimmtudag, annaðhvort í Fífunni eða Fagralundi.  

Birgir Jónasson þjálfari.